30.03.1937
Neðri deild: 27. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (535)

86. mál, alþýðutryggingar

*Thor Thors:

Í fyrra, þegar frv. shlj. þessu lá fyrir þinginu, má segja, að um það hafi verið algert samkomulag, en það var þá á þeim grundvelli, að þeir menn, sem hér áttu hlut að máli og voru óánægðir með það skipulag, sem frv. gerði ráð fyrir, skyldu fá fé sitt greitt úr sjóðnum. Þetta var samkomulag við hæstv. atvmrh., og við það var staðið á þann hátt, að 14 mönnum var greidd sín innistæða, sem þeir áttu í lífeyrissjóði embættismanna. Þegar þetta mál kom hér í deildina, var ekkert um það vitað, að fleiri væru óánægðir með þetta skipulag og vildu fá fé sitt greitt. Þetta mál fékk enga afgreiðslu í n.; það var ekkert rætt þar, heldur kom það hér, til umr. án nokkurrar þinglegrar meðferðar milli 1. og 2. umr.

Nú hefir það komið í ljós, að mikill hluti símafólksins er mjög óánægður með það að mega ekki ráðstafa því fé, sem það á í lífeyrissjóðnum, og eins að þurfa að greiða áfram hin háu iðgjöld til þessa sjóðs. Lög um alþýðutryggingar veittu mönnum í öndverðu þann rétt, að þeir embættis og sýslunarmenn, sem voru innan við fertugt, skyldu sjálfráðir, hvort þeir vildu heldur halda áfram að greiða til lífeyrissjóðs embættismanna eða að fá féð endurgreitt og greiða svo eins og aðrir til lífeyrissjóðs Íslands. Þessu var fyrst frestað á þinginu í fyrra, en nú stendur til að fresta því á ný. Þegar fram koma tilmæli frá fjölmennri stétt um það, að þeir, sem þeirri stétt tilheyra, fái þann rétt, sem löggjafinn í upphafi hafði heitið þeim, þá tel ég sjálfsagt, að orðið sé við þeim tilmælum. Það er vitað, að fólk það, sem vinnur við símann, er með skylduræknustu starfsmönnum ríkisins, en jafnframt mjög lágt launað, a. m. k. allflestir, og ég tel mjög ranglátt, ef þeim rétti, sem þessu fólki var upphaflega ætlaður, er á ný frestað, eftir þessar mjög svo ákveðnu óskir um að fá að njóta upphaflegra hlunninda alþýðutrygginganna. Þess vegna tel ég rétt að gera þá breyt., sem felst í till. okkar hv. 8. landsk., og ég vænti þess, þar sem hér er um að ræða mjög sanngjarnt mál, sem ekki þarf að verulegu leyti að skerða þennan lífeyrissjóð, og að engu leyti þarf að hindra starf hans, að þá geti hv. d. fallizt á að samþ. hana.