22.03.1937
Neðri deild: 24. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (569)

56. mál, útflutningur á kjöti

*Sigurður Kristjánsson:

Það stendur svipað á um þetta mál og 1. málið á dagskránni (frv. um framlenging á gildi l. um frestun á framkvæmd 2. og 3. málsgr. 62. gr.l. 26/1936, um alþýðutryggingar), að ef það á að ná tilætluðum tilgangi, þarf það að afgreiðast mjög fljótlega, sökum þess, að gildi laganna er víst útrunnið mjög bráðlega. Það er svo um þessi lög, nr. 90 frá 19. júní 1933, að þau snerta nú á allt annan hátt þá menn, sem þurfa að flytja út kjöt úr landinu, en þegar lögin fengu gildi, því það hefir komið sérstakt skipulag á kjötneyzluna innanlands, sem breytir mjög þörf manna fyrir markað erlendis. Ég ætla, að það sé svo eftir lögunum frá 1933, að það sé aðeins eitt fyrirtæki á landinu, sem hefir rétt til að nota enska markaðinn, og að sama fyrirtæki hafi einnig að mestu leyti rétt til norska markaðsins. Þegar svo er komið, að opinber nefnd hefir að mestu leyti ráð á því, hverjir hafa rétt til markaðsins innanlands, eru það miklar breytingar. Það mun vera svo, að Samb. ísl. samvinnufélaga hefir eftir lögunum einkarétt í framkvæmdinni um kjötsöluna á enska markaðinum. Það, sem heilbrigt er, er, að markaðinum bæði utanlands og innan sé skipt milli fyrirtækja eftir þörfum manna fyrir markað, því allt kjöt, sem kemur til sölu, kemur upphaflega frá framleiðendunum, þeim, sem landbúnaðinn stunda, og þeir hafa allir jafnan rétt til markaðsins, hver sem kemur sölunni í verk.

Nú hefir þetta mál farið nokkuð fljótlega gegnum 1. og 2. umr., og var komið á dagskrá á síðasta deildarfundi, en fékkst þá frestað. En ég bjóst ekki við, að það mundi koma strax á dagskrá næta virkan dag, því að með því er útilokað, að fresturinn nægi til þess að hægt sé að koma með brtt., nema þá skriflega.

Ég vil á þessu stigi málsins ekki fara langt út í að ræða málið almennt. Skal ég þó taka fram, máli mínu til skýringar, að við skipun á kjötsölunni innanlands hefir kjötverðlagsn. fengið rétt til þess og sér náttúrlega ástæðu til þess að takmarka, hvað hver og einn megi selja mikið af sínu kjöti á innlendum markaði. En ef svo er gert, að takmarka við menn, hvað þeir megi selja á innlendum markaði, þá má það ekki gerast, nema jafnframt sé opnuð leið fyrir þessa menn til þess að selja það kjöt á erlendum markaði, sem þeir eru útilokaðir með frá innlenda markaðinum. Nú mun það vera svo — ég veit ekki, hvort það er allsherjarregla hjá kjötverðlagsn., en ég hygg þó, að svo sé —, að kaupmenn, sem hafa fjártöku, megi selja 25% af sínu kjöti innanlands. Hv. formaður kjötverðlagsn. er hér viðstaddur, og getur hann leiðrétt það, ef það er ekki rétt. Nú segir í 2. gr. þeirra l., sem hér er um að ræða, að enginn megi flytja út kjöt til Bretlands og Noregs, nema með stjórnarleyfi, og að þessum útflutningi skuli vera skipt á milli manna eftir þeim hlutföllum, sem menn notuðu þessa markaði á árunum 1930 til 1932. Nú getur vel svo farið, að þeir menn, sem útilokaðir eru með 75% af sinni kjötframleiðslu frá innlendum markaði, hafi lítið eða ekkert flutt út af kjöti á þessum tiltekna tíma. Og áreiðanlega hafa þeir ekkert flutt til Englands, því að þá var óbeint flutt til Englands kjöt frá ríkinu, og ekki öðrum. Ég hygg, að S. Í. S. hafi haft þessa tilraunasölu eingöngu. Jafnframt þessu er það að athuga, að mjög margir höfðu þá innlendan markað fyrir allt sitt kjötmagn. Þegar þeir eru svo útilokaðir með 75% af þessu kjöti frá innanlandsmarkaðinum, þá geta þeir ekki selt þann hluta nema á útlendum markaði. En jafnframt er þeim markaði lokað fyrir þeim. Hafi þeir lítið eða ekkert notað af útlenda kjötmarkaðinum þessi tilteknu ár, 1930 til 1932, þá brenna þeir inni með þessi 75% af kjöti sínu. Þetta er það, sem ég tel ranglátt í löggjöfinni og þyrfti að leiðrétta. Ef því ekki verður frestað umr. um málið nú, eins og ég legg til, þá vil ég leyfa mér að bera fram skrifl. brtt. við frv. Ég vil heyra undirtektir hv. flm. og hæstv. forseta undir þessi tilmæli mín um að fresta umr. nú, áður en ég ber fram skrifl. brtt.