04.03.1937
Efri deild: 14. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (57)

12. mál, skipsstjóraréttindi til handa Pétri Sigurðssyni

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Um brtt. þá, sem fyrir liggur, get ég sagt það, að ég get fallizt á, að hún verði samþ. Annars sé ég ekki, að með henni verði nein efnisbreyt. á frv. Í frv. stendur, að próf Péturs Sigurðssonar skuli jafngilda skipstjóraprófi á varðskipum ríkisins. En það liggur í hlutarins eðli, að þótt prófið sé fengið, þá þarf hann að uppfylla sett skilyrði um siglingatíma, áður en hann getur fengið skipstjóraréttindi. Þetta er kannske gleggra tekið fram í brtt. heldur en frv., svo að ég sé ekki ástæðu til að mæla gegn henni.

Að því er snertir fyrirspurn hv. 1. þm. Skagf., þá get ég upplýst það, að Pétur Sigurðsson var af ríkisstj. rétt fyrir áramótin síðustu ráðinn í þjónustu ríkisins til þess að vinna að þeim störfum, sem hér er drepið á í grg., frá 1. jan. 1938 að telja, og það kaupgjald, sem honum var lofað, var, að ég ætla, um 4800 kr. Annars þori ég ekki að fullyrða það, en yfir 5000 kr. var það ekki.

Hv. þm. spurði, hvaða heimild stj. hefði haft til þess að gera þessa ráðstöfun, og hvort svo mikið hafi legið á, að ekki hefði mátt bíða þingsins, því að það hefði verið kurteisara. Ég get upplýst það, að ef hugsa átti til þess að fá þennan mann, þá varð að ráða hann strax, því að annars hefði hann ráðið sig í þjónustu erlendis, og ekki líkur til þess, að kostur hefði verið á að fá hann heim í bráð. Þess vegna var málinu flýtt svo mikið. — Að því er snertir það, hvaða heimild stj. hafi haft til þess að gera þessa ráðstöfun, þá lít ég svo á, að það sé sjálfsögð skylda stj. að sjá um, að til sé í landinu maður, sem hefir þekkingu til að taka að sér þau störf, sem hér er um ræða. Á síðasta þingi voru samþ. l. um að taka flokkun og skoðun skipa inn í landið. Þá kom það í ljós, að það er aðeins einn roskinn maður í landinu, Páll Halldórsson, skólastjóri við stýrimannaskólann, sem kann að ákveða hleðslumörk skipa. Það er náttúrlega allt of lítið, ekki sízt þar sem það er aldraður maður, sem í hlut á. Það er því nauðsynlegt, að til sé fær maður í þessum efnum, ef á að framfylgja l. þeim, sem sett hafa verið um skoðun og flokkun skipa. Eins er það með mælingar skipa, að það eru aðeins 2 menn, sem það kunna, Ólafur Sveinsson og Páll Halldórsson, og ég efast um, að þeir hafi þær nýjustu aðferðir, sem nú eru notaðar í þeim efnum. Ríkisstj. getur að sjálfsögðu tryggt sér kennslukrafta við stýrimannaskólann án þess að leita til þingsins um það. Það þarf enga sérstaka heimild í því efni.

Það er rétt hjá hv. 1. þm. Skagf., að fé hafi ekki verið veitt á fjárl. til sjómælinga undanfarin ár neitt að ráði umfram laun Friðriks Ólafssonar. En það stendur svo á um hann, eins og hv. þm. gerði sjálfur grein fyrir, að hann hefir verið ráðinn sem varðskipstjóri, en hefir verið í landi og þess vegna látinn vinna að þessum störfum og halda launum. Það segir sig sjálft, að óráð var að borga manninum 10 þús. kr. fyrir að gera ekki neitt. Þá var ráðlegra að gera það, sem gert hefir verið af ríkisstj., að leggja fram fé til viðbótar til sjómælinga, þannig að hann hefði eitthvert starf að vinna. Ég hygg, að svo muni einnig verða gert framvegis, og ætlun ríkisstj. er sú, að um leið og landmælingunum er lokið, verði snúið sér að því að taka upp sjómælingar nokkurn veginn skipulega frá ári til árs. Það er ekki hægt að segja um það með vissu, hvenær landmælingunum verði lokið. Ef verður úr ráðagerð herforingjaráðsins danska að nota flugvélar við mælingarnar, þá gæti þeim kannske orðið lokið á þessu sumri. Það er ekki mörgum mönnum til að dreifa hér, sem færir væru til að taka að sér starf við sjómælingar, a. m. k. ekki án frekari náms, bæði við mælingarnar sjálfar og það, sem því starfi fylgir. — Hv. þm. spurði, hvort nokkur ástæða væri til að veita þessum manni skipstjórnarréttindi í sambandi við þessi störf. Ég verð að líta svo á. Það getur hugsazt, að hann væri stýrimaður á því skipi, sem annast sjómælingar, og ég sé því ekkert því til fyrirstöðu, að hann öðlist réttindi til þess að vera stýrimaður á því skipi.