22.03.1937
Neðri deild: 24. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

56. mál, útflutningur á kjöti

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Mér virtist það koma fram hjá hv. 6. þm. Reykv., að hann teldi, að hér þyrfti að koma fram breyt. á l. í þá átt, skildist mér, að í staðinn fyrir að miðað er við árin 1930 til 1932, þ. e. 3 árin næstu áður en kjötsalan til Noregs varð takmörkuð, um leyfi til handa verzlunum til að flytja út kjöt, beri fremur að taka tillit og jafnvel eingöngu, að mér skilst, til þess, hversu mikið kjöt verzlanir hafa í það og það skiptið, sem þær óska eftir að selja á erlendum markaði. Var þetta ekki rétt skilið? (SK: Jú, það, sem menn eiga af kjöti á hverjum tíma).

Hv. þm. var að tala um, að eins og nú væri, þá hefði eitt félag allan enska kjötmarkaðinn. Það er rétt út af fyrir sig, að það hefir alltaf eitt á honum verið. En að því leyti voru orð hv. þm. fallin til að villa sýn í þessu efni, að markaður fyrir okkar freðkjöt hefir verið víðar en í Englandi, og hann hefir verið öllum opinn. Okkar bezti freðkjötsmarkaður, að því er verðið snertir, hefir verið í Svíþjóð, þó að hann sé ekki stór. Einnig í Danmörku höfum við haft góðan markað fyrir freðkjöt, það, sem sá markaður hefir náð. Haustið 1935 fóru 1100 tonn af freðkjöti frá S. Í. S. til Englands, en 500 tonn fóru annað. Þar að auki flutti einn kaupmaður hér á landi freðkjöt til Danmerkur. Hinsvegar flutti þá S. Í. S. út freðkjöt fyrir 2 kaupmenn, og nú í haust líka fyrir þann eina, sem árið áður flutti út sjálfur, af því að hann taldi sér hagnað af því, að S. Í. S. seldi fyrir hann. Kom þar því ekki til greina annað en hrein viðskiptamál. Þess vegna, þótt þetta sé óbreytt með enska markaðinn, þá breytir það engu að því leyti, að freðkjöt selst víðar en þar og allsstaðar annarsstaðar þarf ekki leyfi til freðkjötssölu. Sama máli gegnir um norska markaðinn. Það er satt, að það kom í haust sem leið nokkuð illa við 4 verzlanir á landinu, hvað þær fengu lítið leyfi til að flytja á norska saltkjötsmarkaðinn. 2 af þessum verzlunum höfðu þá aðstöðu, að áður hafði kjöt af því svæði, sem þær höfðu kjöt af til sölu, verið selt að mestu á innanlandsmarkaðinum, en þær hafa nú, síðan kjötverðlagsn. kom til sögu, orðið að flytja nokkuð af sínu kjöti út. Ein af þessum verzlunum hefir vaxið á sama tíma sem norski markaðurinn hefir minnkað. Og ein verzlunin var tiltölulega ný, og þess vegna gat hún ekki fengið rétt til Noregssölu eftir þeim reglum, sem ráðuneytið hefir orðið að fara eftir. Það, sem hér hefir því skeð, er ekki annað en það, að þessir menn verða að selja sitt kjöt annað en til Noregs. Auðvitað er misjafnt, hvernig sú sala gengur. Haustið 1935 var danski saltkjötsmarkaðurinn heldur betri yfirleitt en sá norski, og þá notuðu menn ekki nærri öll sín leyfi til að flytja á norska markaðinn. Nú aftur á móti í haust var norski saltkjötsmarkaðurinn betri, en þröngt um söluna í Danmörku. Þá vildu allir helzt fara með allt sitt saltkjöt á norska markaðinn. Þetta mun hafa valdið óánægjunni. Hinsvegar var ekki saltað meira kjöt í haust til útflutnings en það, að það var 400 tunnum minna heldur en mátti selja til Noregs í haust, að viðbættu því saltkjötsmagni, sem seldist á öðrum mörkuðum en Noregsmarkaðinum í fyrra. Það eiga nokkrir eftir að flytja í sín norsku leyfi enn.

Hvað kjötsöluna snertir, hefir ekkert misræmi myndazt milli kaupmanna annarsvegar og kaupfélaga hinsvegar. Miðað við sölu saltkjöts til Noregs 1930 til 1932 voru hlutföllin milli þess, sem kaupmenn annarsvegar og kaupfélög hinsvegar urðu að selja af saltkjöti sínu í heild til annara staða en Noregs í haust, að meðaltali þannig, að kaupmenn urðu að selja á aðra markaði 25%, en kaupfélög 24% af saltkjöti sínu. Þessi verður útkoman, þegar kjötmagn þessara aðilja þannig er tekið sem heild, hvort í sínu lagi, sem kaupfélög annarsvegar þurfa að selja og hinsvegar kaupmenn. Og kjötmagnið sem slíkar heildir er það, sem kemur til greina í þessu tilliti, þegar verið er að bera saman kaupmenn og kaupfélög og kjötsölu þeirra, eins og hv. 6. þm. Reykv. gerir. Hér kemur því ekkert misræmi fram.

Ég hefi vikið að því, að 2 verzlanir eru í landinu, sem verzla með saltað kjöt og virðast hafa slæma möguleika til að selja það annarsstaðar en í Noregi, en eftir l. geta ekki fengið að selja þar. Ég býst nú ekki við, að ástæða sé til að breyta l. þeirra vegna. Ég sé ekki, að hægt sé að gera annað fyrir þær en að leyfa þeim meiri innanlandssölu. Ég býst við, að ekki sé hægt að koma á móti þeim á annan veg en þann.