22.03.1937
Neðri deild: 24. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í B-deild Alþingistíðinda. (572)

56. mál, útflutningur á kjöti

Frsm. (Páll Zóphóníssson):

Herra forseti! Ég vil leiðrétta tvennt í ræðu hv. 6. þm. Reykv. Ég skal ekki tala hér um verð eða kostnað á hverri tunnu af saltkjöti. Það kemur þessu máli í raun og veru ekki mikið við, en vitanlega fer hv. 6. þm. Reykv. þar með rangt mál, eins og oftar.

Hv. 6. þm. Reykv. var að tala um misrétti á milli manna vegna þessara l. En ég veit bara ekki, hvað hann kallar misrétti. Við skulum taka dæmi úr veruleikanum, eins og hann liggur fyrir. Gamalt, gróið kaupmannaverzlunarfélag hér á landi, sem hv. þm. V.-Sk. kannast við, ef hann er hér inni, hefir aukið sitt kjötmagn, síðan þessar takmarkanir voru settar. Á sama tíma og salan til Noregs minnkar ár frá ári hefir kjötmagn þess aukizt. Þess vegna er komið svo fyrir þeim, að þeir hafa of lítið söluleyfi á norska markaðinum. Annað firma er hér á landi, sem fyrst er til eftir að þessar takmarkanir á sölu til Noregs koma. Það hefir minna kjöt en hið fyrrnefnda, en þó talsvert kjöt. Það hefir ekkert leyfi fengið til Noregssölu. Nú skilst mér á hv. 6. þm. Reykv., að það sé að hans dómi það rétta að láta þessa menn fá einhver leyfi til Noregssölu og minnka að sama skapi rétt hinna, sem hafa réttinn til sölunnar eftir lögunum, þeirra, sem alla æfi sína hafa mátt selja á norskum markaði saltkjöt sitt, — láta þessa síðartöldu fá að selja þar enn minna, til þess að nýir menn í þessari verzlunargrein selji í staðinn fyrir þá. Þetta kallar hv. 6. þm. Reykv. réttlæti. Ég kalla það misrétti að taka til greina kröfur þeirra manna, sem segja: „Þessir menn, sem hafa alla sína æfi selt á norska markaðinum, eiga nú að fá að selja þar miklu minna, af því að við viljum fá markaðinn fyrir okkar kjöt, þó að við höfum ekki selt þar fyrr“. Þeir menn, sem hafa komið inn í kjötmarkaðinn undir þessum skilyrðum, þeir verða að sætta sig við það ástand, sem var, þegar þeir komu inn í þessa verzlun. Í þessu tali sínu um misrétti hygg ég, að hv. 6. þm. Reykv. snúi hlutunum alveg öfugt, en misrétti kemur fram, ef á að útiloka alla þá að meira eða minna leyti, sem réttinn höfðu áður en takmarkanirnar komu, þá, sem eiga hann siðferðislega séð.

Hv. 6. þm. Reykv. sagði líka, að S. Í. S. hefði nokkurskonar einkarétt til þess að selja á norska markaðinum, af því að það hefði selt þar mest áður en þessi ákvæði um kjötsöluna komu. Það er svo lítið rétt í þessu, að þegar maður, eins og ég áðan tók fram, tekur allt kjöt sér, sem S. Í. S. hefir selt á norska markaðinum árin 1930 til 1932, og hinsvegar allt kjöt sér, sem kaupmenn hafa selt á þeim sama markaði á sama tíma, þá verður útkoman þannig, að á þessum þremur árum er það 24% af sínu saltkjötsmagni, sem S. Í. S. verður að selja á öðrum markaði en þeim norska, en 25%, sem kaupmenn verða að selja af sínu saltkjöti utan norska markaðarins. Hér er því aðeins um 1% mun að ræða. Það er nú allur munurinn. Allur einkarétturinn, sem hv. 6. þm. Reykv. talar um. Þetta eina prósent gefur honum ástæðu til að tala um einkaréttaraðstöður. Það er alveg víst, að hv. þm. hefir ekki aðgætt þær tölur, sem fyrir liggja í þessu máli, áður en hann sagði þessi orð; annars hefði hann aldrei sagt þau.

Eins og ég sagði áðan, eru það aðeins tvær verzlanir, sem þessi takmörkun á norska markaðinum gengur út yfir, og það virðist ekki vera hægt að skapa þeim bætta aðstöðu nema að gera öðrum um leið rangt til, nema þá með því að vilna þeim eitthvað í á innlenda markaðinum. Fleiri eru það ekki, sem koma til greina.