22.03.1937
Neðri deild: 24. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

56. mál, útflutningur á kjöti

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Ég sé enga ástæðu til að fresta málinu; það er búið að vera það lengi hér í hv. d., að menn ættu að vera búnir að átta sig á því. Auk þess hefir málið legið fyrir þingi eftir þing áður, m. a. öllum þeim þingum, sem ég hefi setið. Ég sé ekki, hvað aðstaðan hefir breytzt síðan í fyrra, svo að menn ekki geti verið búnir að átta sig á þessu máli, sem hv. þm. eru búnir að hugsa sig um í þrjú eða fjögur ár.

Hvað snertir það, sem hv. 6. þm. Reykv. var að tala um sölu innýfla til Englands, þá held ég honum sé bezt að tala sem minnst um það mál, utan þings og innan. Það er rétt, að einn kaupsýslumaður hér fór að flytja frosin innýfli til Englands. En hann hafði ekki einu sinni sett sig það vel inn í ensk lög, að hann vissi, í hvernig umbúðum og með hvaða merkjum varan átti að vera, svo ráðuneytið varð að skerast í leikinn, til þess að þetta stórskaðaði ekki markaðinn. Sá skaði hlauzt þó af, að eins árs stanz varð á slíkri sölu. Ég ætlaði ekki að fara út í þetta hér, því það tilheyrir ekki í þingsölum, en af því hv. þm. gat um þetta sérstaklega, gat ég ekki látið vera að segja frá þessu.