15.03.1937
Efri deild: 19. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (595)

60. mál, læknishéruð

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Allshn. flytur frv. þetta f. h. stj., og vil ég því f. h. n. láta fylgja því nokkur orð, sem ég geri ráð fyrir, að hæstv. atvmrh. bæti við, ef honum finnst þess þörf.

Frv. gengur út á það, að næst þegar héraðslæknisembættin á Akureyri og í Reykjavík verða veitt, skuli gerðar aðrar kröfur til þeirra en nú er. Jafnframt er gert ráð fyrir, að laun læknanna hækki allmjög frá því, sem þau eru nú ákveðin í launalögum. Læknar þeir, sem hér er um að ræða, vinna yfirleitt allt önnur störf en venjulegir læknar. Þannig er t. d. héraðslækninum hér í Reykjavík beinlínis bannað nú orðið að gegna almennum læknisstörfum. Störf hans, og sömuleiðis héraðslæknisins á Akureyri, við skýrslusöfnun, sóttvarnareftirlit o. fl. eru orðin svo mikil, að það út af fyrir sig er talið nægilegt starf fyrir einn lækni. Af þessum ástæðum hefir stj. því gengið inn á að hækka laun þessara manna, því að það er ekki hægt að búast við, að læknar fáist til þess að vinna fyrir 2500 kr., eins og t. d. laun héraðslæknisins á Akureyri eru nú, þegar aðrir stéttarbræður þeirra hafa mörgum sinnum meira. Laun þau, sem frv. gerir ráð fyrir, að mönnum þessum verði greidd, eru 6 þús. kr. Þó að hér sé um allverulega hækkun að ræða frá ákvæðum launalaganna, þá óttast ég samt, að erfitt verði að fá sæmilega menn í stöðurnar, nema þá að einhver önnur fríðindi komi til greina. Á Akureyri eru nú t. d. 7 eða 8 praktiserandi læknar, en eins og kunnugt er, miklu fleiri hér í Reykjavík. Getur því tæplega orðið um aukatekjur að ræða fyrir þá vegna almennra læknisstarfa, enda þótt þeim yrði heimilað að hafa þau að einhverju leyti með höndum. Annars má vel vera, að útvega megi einhverjar aukatekjur með þessum embættum, svo sæmilegir menn fáist í þau. En eins og nú standa sakir, þá myndi enginn vel menntaður læknir fást í þessi embætti fyrir þessi ákveðnu laun, og því til sönnunar þarf ekki annað en athuga samninga þá, sem sjúkrasamlögin hafa gert við læknana. Samkv. þeim samningum hefir hver meðallæknir miklu hærri laun en hér er gert ráð fyrir að greiða.

F. h. allshn. mun ég láta þetta nægja, en geri hinsvegar ráð fyrir, að hæstv. atvmrh. bæti hér einhverju við.