15.03.1937
Efri deild: 19. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

60. mál, læknishéruð

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég held, að ákvæði 1. gr., sem hv. 1. þm. Reykv. benti á, sé sett í frv. með tilliti til þess, að það næði til fleiri kaupstaða en Akureyrar og Reykjavíkur. Það er alveg rétt hjá hv. þm., að í frv. eins og það er nú er engin trygging fyrir því, að aukastörf þau, sem nefnd hafa verið í þessu sambandi, verði lögð undir embættin. Þó geri ég fastlega ráð fyrir, að t. d. matvælaeftirlitið geti fallið undir þau samkv. frv. Annars mætti mjög vel ákveða í lögunum, hvað af þessum aukastörfum, sem nefnd eru í grg., skyldi falla undir embættin.

Þá taldi hv. þm., að það væri nýmæli, þar sem frv. gerir ráð fyrir, að hlutaðeigandi bæjarfélögum verði gert að skyldu að greiða nokkurn hluta af skrifstofukostnaði héraðslæknanna. Þetta ákvæði tel ég alveg réttmætt, því að hér eftir má ganga út frá því, að héraðslæknarnir verði að meira eða minna leyti ráðunautar bæjarstjórnanna í öllum heilbrigðismálum, miklu meira en þeir hafa verið hingað til. Ég er því fylgjandi því, að þessu ákvæði verði ekki breytt.