15.03.1937
Efri deild: 19. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (601)

60. mál, læknishéruð

*Magnús Jónsson:

Það eru aðeins örfá orð út af ákvæðinu um skrifstofuhaldið. — Mér hefir skilizt það, að eins og nú er, þá séu mismunandi taxtar fyrir héraðslækna og praktiserandi lækna, og að héraðslæknar — fyrir utan það, að þeir eru skyldugir til að sinna kalli sjúklinga, — verði að vinna sitt verk fyrir lægra verð. Þar sem þessir embættislæknar koma, skilst mér, að viðkomandi kaupstaðir séu sviptir þessu hvorutveggja, bæði því, að nokkur sé skyldugur til að sinna læknisbeiðni og því að geta fengið lækni fyrir lægra verð. Það má kannske segja, að þetta breytist, þar sem sjúkratryggingarnar eru að komast á, en það er þó a. m. k. á það að líta, að nokkrir eru utan við þær tryggingar, og þeir eru þá sviptir þeim hlunnindum að geta leitað til ódýrari lækna. Það er aðeins í sambandi við þetta, sem mér finnst hart, að um leið og kaupstaðirnir eru sviptir þessum hlunnindum, þá verði þeir að taka á sig kostnað við þessa lækna, sem bæjarbúar hafa ekkert gagn af.

Ég vildi sem sagt aðeins nú við þessa umr. vekja máls á þessu, því ég býst við, að frv., sem er svona nýtt, geti staðið til breyt. og bóta.