30.03.1937
Efri deild: 28. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í B-deild Alþingistíðinda. (611)

60. mál, læknishéruð

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Ég hélt, að það ætti að leita afbrigða fyrir till. á þskj. 148, en fyrst það verður ekki gert, ætla ég að segja fáein orð um hana.

Brtt. gengur út á það, að skipta skrifstofukostnaði héraðslæknanna á Akureyri og í Reykjavík til helminga milli ríkis og bæjanna. Meiri hl. allshn., sem í er ég og hv. 4. þm. Reykv., álítur, að það sé sanngjarnt að skipta kostnaðinum, en leggja hann ekki eingöngu á bæjarfélögin. Hér er ekki um neitt stórfé að ræða. Við höfum rætt um þetta við landlækni og við hæstv. ráðh., og þeir hafa ekkert sérstakt við þetta að athuga. Þessi till. kom fram fyrir nokkrum árum af hálfu landlæknis, en þá náði málið ekki fram að ganga. En hann er sama sinnis og áður um, að honum finnist þessi skipting vera eðlileg.

Svo er ennfremur 2. brtt. um það, að þetta ákvæði um skrifstofuhaldið komi til framkvæmda í Rvík nú þegar. Það leiðir af sjálfu sér, að ef nauðsynlegt er að koma þessu á á Akureyri, þá mun það vera miklu nauðsynlegra hér í Rvík.

Hv. 2. þm. S.-M. gat ekki fylgzt með meiri hl. og gerir hann væntanlega grein fyrir sinni afstöðu til málsins við þessa umr.

Við 1. umr. voru nokkrar aths. gerðar við frv. af hv. 1. þm. Eyf. og hv. 1. þm. Reykv. Ég verð um það, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði, að vísa til þess, sem ég tók fram við 1. umr. Ég sé ekki annað en fyrir því sé séð í frv., að þeir menn í nánd við Akureyri, eða í þeim parti Akureyrarhéraðs, sem er fyrir utan Akureyri, séu ekki afskiptir, heldur sé fyrir þeim séð í frv. sjálfu, þar sem stj. er falið að setja nánari reglur í erindisbréfinu, jafnframt því sem héraðslæknisstörfin eru að meira eða minna leyti tekin af héraðslækninum. Í þessu liggur það, að héraðslæknirinn á Akureyri verði ekki leystur frá héraðslæknisstörfunum að því er snertir þann hluta héraðsins, sem liggur utan Akureyrar.

Við mótbáru hv. 1. þm. Reykv. er það að segja, að ég hygg, að hann muni eftir atvikum geta sætt sig við þá miðlun, sem hér er stungið upp á. Hér er ekki um mikið fé að ræða, því þetta skrifstofuhald er ekki mikið.

Ég tel svo ekki, að ég þurfi að segja meira um málið að sinni.