30.03.1937
Efri deild: 28. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í B-deild Alþingistíðinda. (614)

60. mál, læknishéruð

*Ingvar Pálmason:

Eins og hv. 1. þm. Skagf. gat um, er ég ekki meðflm. að þessari brtt., og það er af því, að ég sé ekki neina knýjandi nauðsyn, að svo stöddu, að setja þau ákvæði í frv., sem brtt. gerir ráð fyrir. Ég get að sjálfsögðu ekki um það dæmt, hvað skrifstofukostnaðurinn verður mikill. Mér skildist á hv. 1. þm. Skagf., að ekki væri um mikla upphæð að ræða.

Ég tel, að ef það færi svo, að hér væri um mikla upphæð að ræða, og að störf þessara lækna mættu teljast að jafnmiklu leyti í þágu ríkisins og bæjarfélaganna, þá gæti þessi breyt. alltaf komið til greina. Ég sé ekki ástæðu til þess að svo stöddu, að gera þessa breyt. á frv. Tíminn mun leiða í ljós, hvort það er sanngjarnt, og þá er alltaf hægt að fá þessa breyt. í gegn.

Að því er snertir síðari málsgr., sem hljóðar um það, að ákvæði um skrifstofuhaldið komi til framkvæmda nú þegar, þá finnst mér það óþarfi, því það er á valdi landlæknis, og þar sem hann hefir samið frv. og ekki séð ástæðu til þess að kveða svo fast á um þetta í því, þó finnst mér ekki heldur ástæða til þess að flytja um það brtt.

Ég vildi aðeins gera grein fyrir afstöðu minni til þessarar brtt.