08.04.1937
Neðri deild: 33. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í B-deild Alþingistíðinda. (619)

60. mál, læknishéruð

*Frsm. (Thor Thors):

Efni frv. þessa er það, að næst þegar héraðslæknisembættin hér í Reykjavík og á Akureyri losna, þá skuli þau veitt sérfræðingi í heilbrigðisfræði. Jafnframt er og ákvæði um það, að árslaun þessara lækna skuli verða 6000 kr., enda ekki ætlazt til, að þeir gegni almennum læknisstörfum. Það er líka svo komið, að störf þessara lækna eru orðin svo mikil, að þeir geta ekki annríkis vegna sinnt almennum lækningastörfum.

Laun héraðslæknanna á þessum stöðum eru svo lág, þar sem þeir geta ekki sinnt almennum lækningum, að engin von er til, að hægt verði að fá í embættin sæmilega lækna. Er því ekki talið fært annað en hækka launin. Frv. er samið af landlækni, og hefir verið borið undir bæði læknafélög landsins, Læknafélag Íslands og Læknafélag Reykjavíkur, og mæla stjórnir beggja félaganna eindregið með því, telja það nauðsynlegt.

Allshn. telur það og nauðsynlegt og leggur því einróma til, að það verði samþykkt.