24.03.1937
Efri deild: 27. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

95. mál, samvinnufélög

*Pétur Magnússon:

Ég sé nú, þegar hv. 2. þm. Eyf. bendir mér á það, að það er rétt, að í 10. gr. frv. er ákvæði, sem sker í rauninni úr um, að ætlazt er til, að stofnsjóðirnir séu tryggingarfé, er komi á eftir öðrum skuldtryggingum félaganna, svo það má segja, að um þetta atriði verði enginn vafi lengur, enda mun almennt hafa verið litið svona á þetta. En það breytir engu um hitt, að það vantar skýrari ákvæði heldur en nú eru í lögum um það, hvernig hægt er að notfæra sér þessa tryggingu, ef ætlazt er til, að það sé hægt án þess að skiptameðferð fari fram. Þetta er ákaflega þýðingarmikið atriði fyrir samvinnufélögin, hvort þau hafa heimild til, án þess að allir félagsmenn samþykki, að afskrifa stofnsjóðsinnstæður, ef það þykir nauðsynlegt vegna fjárhags félagsins. Það mun hafa verið gripið til þessa í nokkrum tilfellum, en verið ágreiningur um, hvernig það yrði gert svo löglegt væri, svo þó ákvæði 10. gr. þessa frv. komist inn í samvinnulögin, breytir það engu um það, að full ástæða er til að gefa þessu atriði nánari gætur.