03.03.1937
Neðri deild: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

41. mál, verkfræðingar, húsameistarar eða iðnfræðingar

Flm. (Emil Jónsson):

Þetta frv. þarf ekki mikilla skýringa við. Það er flutt samkv. ósk Verkfræðingafélags Íslands og Félags akademiskra byggingafræðinga, og efni þess er í stuttu máli að tryggja það, að rétt til þess að kalla sig verkfræðinga, húsameistara eða iðnfræðinga hafi þeir einir, sem til þess hafa leyfi ráðh., en til þess þurfa þeir að fullnægja þeim skilyrðum um menntun, sem frv. setur.

Nú er með lögum verndaður réttur ýmissa stétta, svo sem skipstjóra, lækna o. fl., og er þar þó gengið lengra en hér er gert, þar sem ollum almenningi er bannað að inna störf þeirra af hendi. En hér er ekki farið fram á neitt slíkt, heldur aðeins það, að próflausum verkfræðingum og húsameisturum leyfist ekki að nota þessi nöfn, eins og hefir viljað við brenna. Ennfremur er hér tekið upp, að menn skuli hafa próf frá viðurkenndum tekniskum skóla til þess að mega kalla sig raffræðinga, vélfræðinga o. s. frv.

Frv. er, eins og ég sagði, flutt fyrir atbeina Verkfræðingafélags Íslands, sem er 25 ára gamalt félag, og Félags akademiskra byggingafræðinga, sem er nýstofnað. Félag iðnfræðinga mun hinsvegar ekki vera til ennþá.

Við höfum flutt þetta frv. þrír, sinn úr hverjum flokki, til þess að það yrði ekki gert að flokksmáli. Annars gengur frv. skemmra en ætla mætti, þegar miðað er við hliðstæðar stéttir og atvinnuréttindi þeirra.