19.03.1937
Neðri deild: 22. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (666)

41. mál, verkfræðingar, húsameistarar eða iðnfræðingar

*Sigurður Kristjánsson:

Ég vil taka undir það, sem hv. þm. Ak. sagði, að það er ekki rétt að vefja utan um þetta mál miklum umbúðum, þar sem það er svo lítið, sem verið er að deila um. Það er rétt, að við erum sammála um það, að sett verði lög um þetta efni til þess að fyrirbyggja allan glundroða, en það, sem á milli ber, er það, hvernig fara á með þá menn, sem fyrir eru sem starfsmenn í þessum greinum, — hvort annar aðilinn eigi að hafa dómsvald yfir hinum, eða hvort þriðja vald eigi að koma til, sem skeri úr. Ég ætla, að það sé ákaflega fágætt, að ef menn greinir á um hagsmuni, þá sé annar aðilinn seldur skilyrðislaust undir dóm hins. Þegar hv. þm. Hafnf. heldur því fram, að ég og hv. þm. Ak. ætlumst til þess, að hæstv. ráðh. skeri úr þessu algerlega án þess að fá nokkrar till. um málið, þá er þar tæplega rétt skýrt frá. Við gerum auðvitað ráð fyrir, að ráðh. safni að sér öllum gögnum og upplýsingum, og þá náttúrlega ekki sízt frá faglærðum mönnum. En það er ein hætta, sem kynni að geta valdið smáslysum, ef till. okkar hv. þm. Ak. yrði samþ., og hún er það, að ráðh. freistaðist í einstaka, tilfelli til þess, vegna vináttu eða einhvers annars, að láta óverðuga menn hljóta þessa titla. Þetta er að vísu ekki mikil hætta, því að það má gera ráð fyrir, að þeir, sem teldu gengið á sinn rétt, myndu hreyfa því máli opinberlega, og ef maðurinn væri ekki almenns trausts verður, þá geri ég ráð fyrir, að hann yrði fljótt brennimerktur.

Þó að þetta megi ef til vill kallast smámál, þá finnst mér það vera þess eðlis að því er snertir sérstakan rétt manna og þar af leiðandi að öllum líkindum hagsmuni þeirra, að sjálfsagt sé fyrir hv. þd. að athuga málið mjög gaumgæfilega. Enda þótt ég hafi varað við að hafa miklar umbúðir utan um þetta mál, ætla ég að minnast á það, sem hv. þm. Hafnf. sagði, að öll löggjöf um þetta hjá nágrannaþjóðum vorum væri alveg ný, og það er eftirtektarvert, ef við, sem ekki erum aðeins á gelgjuskeiði, heldur börn í öllum verkvísindum, eigum að fara að setja strangari lög heldur en t. d. Þjóðverjar, sem líklega má telja allra norðurálfuþjóða fremsta í verkvísindum, og, hafa ekki séð ástæðu til að setja löggjöf um þetta efni hjá sér fyrr heldur en fyrir 2–3 árum síðan. Því verður ekki neitað, að þeir, sem hafa fengizt við vísindalega vinnu, eins og verkfræðingar, húsameistarar og iðnfræðingar, hafa meira og minna lagt út á þessa braut með litla von um mikla atvinnu; verkefnin hafa verið svo ákaflega lítil hér á landi. Menn hafa verið að þreifa sig áfram á þessu sviði, og af því stafar það, sem hv. þm. Ak. skýrði frá, að hinir „akademisku“ húsameistarar urðu víst ekki nema 4, sem gátu tekið sig út úr félaginu, en hinir eru allmargir, sem eftir eru, og það sýnir náttúrlega, að menn hafa komið inn í þessa grein eftir ýmsum leiðum. Það er ekki hægt að neita því, að til þess að greiða úr þessari flækju er langsanngjarnast, að menn fái að leggja öll sín gögn fyrir alveg óvilhallan dómstól, sem mundi vera ríkisstj., sem jafnframt hefir opna leið til þess að leita sér allra gagna og upplýsinga, áður en úrskurðurinn er felldur. Ég skal ekki fara frekar út það atriði, en ég vil leggja höfuðáherzluna á það, að hér er um það að ræða, hvort taka á almenn réttindi, sem menn hafa unnið sér, af þeim, og ef það verður gert, sem ég er í rauninni samþykkur, að gert verði að vissu takmarki, hvort það sé þá rétt að selja þeim sjálfdæmi, sem heimta, að þessi réttur verði af mönnum tekinn, eða hitt, að fela það óhlutdrægum dómara, sem verður að gera ráð fyrir, að ríkisstj. sé á hverjum tíma.