19.03.1937
Neðri deild: 22. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í B-deild Alþingistíðinda. (668)

41. mál, verkfræðingar, húsameistarar eða iðnfræðingar

*Sigurður Kristjánsson:

Ég held, að það ætli að sannast, sem ég sagði áðan, að það kynni að geta farið svo, að menn greiddu atkv. að lítt athuguðu máli, því að það er ekki hægt að neita því, að ræða hv. 11. landsk. ber vitni um, að hann hefir ekki sett sig mikið inn í þetta mál. Hann gleymir því algerlega, að þetta mál á að vera framtíðarmál, og ágreiningurinn, sem hér um ræðir, er alls ekki um neitt annað en bráðabirgðaákvæði. Hv. þm. sagði, að það væri sagt út í hött hjá mér og útúrsnúningur, að „arkitekta“-félagið eða verkfræðingafélagið ætti að fá sjálfdæmi viðvíkjandi því, hverjir mættu bera þessi heiti. Ég held, að hv. þm. hafi ekki athugað, að í hans eigin frv. stendur, að þessir menn geti ekki fengið þau réttindi, nema þeir séu háskólagengnir. — Þá sagði hv. þm., að þetta frv. yrði alveg þýðingarlaust, ef till. okkar næði samþykki, því að þar með gæti hver maður, sem eitthvað hefði fengizt við þessi störf fengið leyfi til að kalla sig þeim nöfnum, sem hér er ágreiningur um. En þarna gleymdi hv. þm. aftur, að þetta mál á að vera fyrir framtíðina, og hér er aðeins um að ræða ákvæði um stundarsakir, og svo er það algerður misskilningur, að það, að heimila mönnum að sanna fyrir ráðh., að þeir hafi stundað nám og öðlazt þá kunnáttu, sem nauðsynleg er, til þess að þeir geti kallað sig þessum nöfnum, sé sama og að hleypa öllum inn í þetta. Það er leiðinlegt að þurfa að hafa mörg orð um svolítinn ágreining, en það stafar af því, að því er mig snertir, að ég álít það mjög alvarlegt, ef menn fara að beita harðræði, sem stofnað er til með þessu frv., gagnvart þeim mönnum, sem hafa talið sig verkfræðinga, húsameistara eða iðnfræðinga.

Út af því, sem hv. 11. landsk. sagði, að ekki væri verið að taka réttindi af mönnum, vil ég bara segja það, að ég tel það stökustu fjarstæðu, því að það er vitanlegt, að miklir hagsmunir eru bundnir við það, að mega kalla sig því heiti, sem á að vitna fyrir almenningi um hæfileika manna til þess að leysa af hendi störf þau, sem hér um ræðir. Ég tel sjálfsagt, að á eftir þessari lagasetningu verði næsta skrefið, að það opinbera setji það að að skilyrði í þessu efni, að menn hafi hlotið heitið verkfræðingur, húsameistari eða iðnfræðingur. Hér er þess vegna um mikinn rétt að ræða, og þar sem þeir, sem hér er um deilt, hafa öðlazt þessi réttindi óátalið og engin lög í landinu hafa bannað þeim það, þá er þetta raunverulega réttindasvipting.