08.04.1937
Efri deild: 34. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

116. mál, jarðræktarlög

*Magnús Jónsson:

Ég ætla að fara um þetta frv. örfáum orðum, af því að það er hér til 3. umr., án þess að ég ætli að fara að rekja þær breyt., sem frv. gerir á jarðræktarlögunum.

Ég er alveg sammála hv. 4. landsk. að því er snertir réttindi þeirra manna í kaupstöðum, sem að nokkru eða öllu leyti lifa af grasnyt. Ég get ekki séð, að svör hæstv. ráðh. við aths. hv. 4. landsk. um það atriði séu fullgild. Ef ekki er hægt að koma fyrir í lögum réttlátlegum ákvæðum um kosningarrétt þessara manna, hvernig er það þá fremur hægt í reglugerð? Það má segja, að skárra sé að setja þessi ákvæði í reglugerð heldur en lög fyrir það, að þá verði auðveldara að breyta ákvæðunum, ef þau reynast illa, en það verður að finna lausn á þessu máli, og ég fæ ekki séð, af hverju það er auðveldara, þó um reglugerð sé að ræða. Ég sannfærðist ekki heldur af skýringum hv. 1. þm. Skagf. um það, að búnaðarþing eigi að setja þá reglugerð, sem um getur í D-lið 8. gr. Það stendur að vísu síðar í sömu grein, að búnaðarþing eigi að setja reglugerð um kosningu til búnaðarþings, en ég fæ ekki séð, að það sé sama reglugerðin og um getur í D-lið 8. gr. og á að fjalla um kosningarrétt þessara manna. (MG: Gerir nokkuð til, þó það verði tvær reglugerðir?). Ef þær verða tvær, er engin trygging fyrir því, að búnaðarþing setji reglugerðina, sem talað er um í D-lið. Þetta vildi ég láta koma fram, af því ég get ekki fremur en aðrir hv. þm. sýnt við atkvgr. skoðun mína á þessu atriði. Annars er ég á annari skoðun en hv. 4. landsk. um það, að ég tel það tryggingu fyrir miklu meira fjöri og lífi í Búnaðarfélaginu, að stofnunin verði sjálfstæð, heldur en ef félagið yrði gert að deild í stjórnarráðinu. Eitt atriði er í þessum lögum enn, sem ég tel, að orki nokkuð tvímælis, en það er fjölgun fulltrúa á búnaðarþingi. Sú fjölgun hefir í för með sér allmikinn aukakostnað, þegar þetta þing er farið að sitja fleiri vikur, jafnvel mánuð. Fulltrúarnir verða vitanlega að fá þingfararkaup. Allur kostnaður við búnaðarþingið hlýtur að takast af því fé, sem Búnaðarfél. er veitt, og það þarf að athuga, hvort fjölgun fulltrúanna um helming og þar af leiðandi helmingshækkun á kostnaðinum við þingið kemur aftur með aukinni gagnsemi búnaðarþingsins.