08.04.1937
Efri deild: 34. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (697)

116. mál, jarðræktarlög

Magnús Guðmundsson:

Ég vil segja fáein orð við sessunaut minn, hv. 1. þm. Reykv., út af því, að honum fannst ekki búið vel um kosningarrétt manna í kaupstöðum og kauptúnum. Ég get fullvissað hann um það, að það er átt við sömu reglugerð í D-lið og í síðari málsgr. 8. gr. Mér er kunnugt um það, því að ég var kosinn í þá nefnd, sem á að undirbúa frv. til reglugerðar um kosningar til búnaðarþings, og vona ég, að hann geti tekið trúanlegt, að ég skýri rétt frá. Annars skal ég benda á það, að það er alls ekki nýtt, að ekki sé gefin tæmandi regla um kosningarrétt í þeim frumreglum, sem mæla fyrir um kosningarrétt; stjskr. mælir fyrir um það, hverjir hafi kosningarrétt til Alþingis, en segir, að nánari reglur séu settar í kosningalögunum. Það er sama fyrirkomulagið, sem hér er hugsað. (MJ: Hér er gerður munur á mönnum). Það er ekki gerður neinn munur á mönnum, því að það koma ýmsar reglur líka um bændur, og það vita allir, að í kosningalögunum eru settar fjölmargar reglur og skilyrði fyrir kosningarrétti, sem alls ekki eru nefnd í stjskr., t. d. það, að menn verði að vera á kjörskrá. Það stendur ekki í stjskr., en það er samt skilyrði fyrir því, að menn geti kosið, og svo er um ýmislegt fleira, svo að hér er ekki verið að taka upp neina nýja reglu; þetta er hliðstæð regla við þá, sem gildir um kosningar til Alþingis. Hér svara lög Búnaðarfélagsins til stjskr. og reglugerðin til kosningalaganna. Að því er snertir þingfararkaupið, sem hv. þm. minntist á, þá verður það hærra, ef sama þingfararkaup er tekið og mönnunum fjölgar um helming, en ég skal upplýsa það, að um það var rætt meðal bænda á búnaðarþinginu síðasta, að hætta að taka þingfararkaup, ef ekki fengist fjárveiting úr ríkissjóði, svo að það verður ekki séð, að það stafi neinn aukinn kostnaður af þessu, og ég er a. m. k. viss um, að ef Alþingi telur rétt að synja um þessa fjárveitingu, þá stendur það ekki fyrir því, að búnaðarþing verði háð.