12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í B-deild Alþingistíðinda. (712)

116. mál, jarðræktarlög

*Héðinn Valdimarsson:

Ég vil taka undir það, að þessu máli verði ekki skotið í gegnum d. með leynd, og að það fái að ganga til n., eins og önnur mál. — En viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. N.-M. sagði, vil ég taka það fram, að hann hefir ekki getað sannfært mig um, að þessar breyt. sé til bóta. Ég er sömu skoðunar og hann var á síðasta þingi og það eru engar þær ástæður fyrir hendi, sem geri það að verkum, að ég þurfi að taka upp nýja skoðun í þessu máli, eins og hann nú hefir gert. Framsfl. hefir á einhvern hátt verið neyddur til þess að ganga að þessum kostum, viðvíkjandi breyt. á I. kafla. jarðræktarl., þvert á móti því, sem sagt hefir verið úti um landið.

Þá vildi hv. þm. afsaka, að það felli burt ákvæðið um beinan kosningarrétt og kosningatilhögun, með því, að nú væri kominn inn í lög Búnaðarfél. beinn kosningarréttur. Ég get nú ekki neitað því, að l. landsins eru stöðugri en l. Búnaðarfél., og það er a. m. k. undarlegt með flokk, sem, heldur eins fast við núv. kosningar rétt og Framsfl., að hann skuli vilja taka þetta út úr hvað snertir Búnaðarfél. Framsfl. heimtaði á sínum tíma, að kjördæmaskipunin gamla yrði sett inn í stjskr., til þess að vera viss um, að ekki væri hægt að breyta henni nema með mikilli röskun. En l. Búnaðarfél. má breyta eftir því sem meiri hl. kann að vilja, og sá meiri hl. getur verið kosinn með allt annað fyrir augum. Og ef fjárhagsáætlun hans, vegna jarðræktarstyrksins, er ekki fram úr hófi vitlaus, þá er ekki hægt að búast við því, að þingið fari að fetta fingur út í það. Það er ómögulegt að neita því, að það sé verið að veikja kosningarréttinn með þessu. Það er einmitt þetta mikla mál, sem framsóknarmenn lögðu undir bændurna og töldu aðalmál þess bardaga, sem nú er verið að koma svo fyrir, að hægt verði að svíkjast aftan að mönnum og koma að öðru kosningafyrirkomulagi, án þess að þeir fái nokkuð um það að segja.

Þá er þriðja atriðið, um kosningarrétt þeirra manna, sem búa nálægt kaupstöðum. Hv. þm. sagði, að kosningarréttur þeirra manna myndi ekki lakari en áður, heldur betri. Ég en ekkert að tala um það, hvort kosningarrétturinn er betri eða lakari, en það er víst, að hann er óviss. Það er ómögulegt að segja, hvernig kosninganréttur þessara manna verður, þegar hann er ekki einu sinni ákveðinn í l. Búnaðarfél., hvað þá í l. landsins, heldur eftir sérstakri reglugerð, sem hægt er að breyta ekki síður en l. Búnaðarfélagsins. Réttleysi þessara manna er því tryggt, í stað þess að kosningarréttur þeirra ætti að vera tryggður.

Það er ekkert af þessum atriðum, sem samið var um, þar sem hægt er að segja, að þeir, sem stóðu að samþykkt jarðræktarlaganna í fyrra, hafi unnið á með þessu samkomulagi við íhaldið og Bændafl. Í öllum atriðunum er undanhald, og það í stórvægilegum atriðum. Og það er ekki enn búið að koma með neina ástæðu, sem skýri það, hvers vegna hæstv. ráðh. og Framsfl. lét undan búnaðarþinginu í þessu máli.