12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

116. mál, jarðræktarlög

*Sigurður Einarsson:

Hv. 2. þm. N.- M. er fyndinn, þegar hann skilst. En það er ekki alltaf. Hann var að drótta því að mér, að ég læsi upp það, sem aðrir hefðu samið. Ég vil ekki vantreysta þessum þm. til þess að semja eitt og annað, en svei mér ef ég hefði ekki tilhneigingu til þess að láta annan lesa það.

Ég vil endurtaka það, að það eru ekki sterk rök, sem hv. þm. flytur fyrir sínu máli. Við hv. 2. þm. Reykv. eru svör hans þau, að hann hafi ekki sett sig inn í málið, ekki lesið þau gögn, sem því fylgja, og þegar lesin er upp ræða eftir hann um þetta mál frá síðasta þingi, þá er því ekki svarandi, vegna þess að þm. hefir lesið það, sem fyrir liggur um málið. Þetta eru býsna einkennileg rök hjá hv. 2. þm. N.-M.

Hinsvegar er ekki um það að villast, að það hefir orðið gersamleg stefnubreyting hjá Framsfl. í þessum málum. Ég vil vitna í það, sem hæstv. forseti sagði um þessi mál, þegar rætt var um skipun búnaðarmálastjóra. Honum farast svo orð: „En þegar þess er gætt, hve mörg af störfum stofnunarinnar eru unnin í umboði ríkisvaldsins og hve tengslin eru hinsvegar lítil á milli hennar og ríkisvaldsins, mun mörgum finnast, að þetta sé ekki óeðlilegt fyrirkomulag,“ — þ. e. að búnaðarmálastjóri standi beint undir ríkisstj. og sé skipaður af ráðh., og þetta er einmitt almenn skoðun á málinu.

Það hefir ekkert að þýða fyrir hv. 2. þm. N.-M. að þykjast hafa sérstöðu í þessu máli, þegar hann játar í öðru orðinu, að sín stefna sé óframkvæmanleg. Í fyrra barðist þessi hv. þm. fyrir þeirri stefnu í máli þessu, sem hann nú gerir sitt ýtrasta til að afneita. Honum þótti í fyrra sá málstaður réttur og góður, að búnaðarmálastjóri stæði „beint undir ríkisstj.“, eins og hann orðaði það. Hvað er nú orðið af rökum hans í fyrra? Hvað er nú orðið af þeirri staðhæfingu hans í fyrra, að framkvæmd jarðræktarl. heyrði ekki að neinu leyti undir umráð íslenzkra bænda? Hér er svo augljós hringsnúningur í ræðum þessa hv. þm., að hann dylst engum.