09.04.1937
Efri deild: 35. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (737)

87. mál, skráning skipa

*Pétur Magnússon:

Ég ætla ekki að mótmæla frv., en mér finnst dálítið vafasamt, að það nái til hlítar tilgangi sínum. Það er alveg rétt, að óheppilegt er, að skip séu samnefnd. En fyrst og fremst á að hindra það — og það mun vera tilgangur frv. —, að nöfn skipa séu tekin upp, þegar eigendurnir, eins og t. d. Eimskipafélag Íslands, hafa valið sér einhverja sérstaka tegund nafna. En ég efast um, að frv. nái þeim tilgangi. Ég held, að skip, sem bera heitin Laxfoss, Skógafoss o. s. frv., geti ekki talizt samnefnd við skip Eimskipafélags Íslands samkv. málvenju. Ég held því, að nefndin ætti að athuga, hvort ekki þurfi að setja víðtækari ákvæði til þess að ná þessu takmarki. Hitt er rétt, að samkv. frv. geta tvö skip ekki borið alveg sama nafn.