18.03.1937
Efri deild: 21. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í B-deild Alþingistíðinda. (766)

65. mál, héraðsskólar

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Þetta frv. sem ég flyt hér sem þm. í þessari hv. d., er þess efnis, að skólinn á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp fái komizt undir ákvæði héraðsskólalaganna að því er snertir fjárveitingar. Þetta frv. er flutt vegna þess, að við þennan skóla hefir verið viðhöfð talsvert mikil nýbreytni á síðustu árum. Sú nýbreytni hefir að sjálfsögðu nokkurn kostnað í för með sér umfram það, sem venjulegt unglingaskólahald krefur, og þykir þess verð, að hún sé styrkt nokkru ríflegar heldur en unglingaskólar og allt að því til jafns við héraðsskóla.

Héraðsskólarnir eru flestir tiltölulega ungir og, ekki full reynsla komin á, hver starfstilhögun þar sé heppilegust. Nokkrir líta svo á, að starfstilhögun í þessum skóla sé svo góð, að vert sé að athuga, hvort hana eigi ekki að taka upp víðar. Skólastjórinn við þennan skóla er ungur og áhugasamur maður og nýtur hins mesta trausts hjá héraðsmönnum bæði í grennd við skólann og jafnvel víðar. Honum hefir tekizt að vekja óvenju mikinn áhuga og einingu meðal þeirra, sem að skólanum standa, fyrir því, að þessari starfsemi sé haldið áfram.

Auk þess, sem gert er ráð fyrir í frv. að veita rekstrarstyrk til skólans, allt að sömu upphæð og héraðsskólum, þá er einnig gert ráð fyrir í frv., að ríkisstj. sé heimilt að veita styrk til nýbyggingar vegna unglingadeildar við skólann. En þess skal getið, að eins og sakir standa eru ekki líkur til, að til nýbyggingar komi fyrr en full reynsla er komin á um, hvernig þessi nýbreytni tekst.

Ég skal svo ekki láta fylgja þessu frv. fleiri orð, en vil mælast til þess, að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til 2. umr. og menntmn.