18.03.1937
Efri deild: 21. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

65. mál, héraðsskólar

Jón Auðunn Jónsson:

Mér þykir vænt um, að þetta frv. er fram komið. Reyndar höfðum við hv. þm. S.-Þ. frv. svipað þessu á prjónunum, en vegna inflúenzunnar var það ekki komið fram þegar þessu frv. var útbýtt.

Ég vona, að þetta frv. nái fram að ganga, því að það hefir sama tilgang og það frv., sem við ætluðum að flytja. Er því útlit fyrir, að þetta mál geti fengið góða lausn á þessu þingi, þar sem vitað er, að allir flokkar standa að því að leysa vandræði unglingafræðslunnar í Norður-Ísafjarðarsýslu.

Það er rétt, sem hæstv. atvmrh. tók fram, að þessi skóli þykir af unglingaskóla vera mjög góður, og að nemendur fái þar kannske betri fræðslu heldur en í hinum eldri héraðsskólum landsins. En auðvitað getur eitt hérað ekki haldið uppi slíkri fræðslu nema fá styrk til þess samkv. lögum um héraðsskóla. En þann styrk hefir skólinn ekki fengið hingað til, en samkv. frv. verður úr því bætt.