15.04.1937
Neðri deild: 39. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (781)

65. mál, héraðsskólar

*Frsm. (Gísli Sveinsson):

Eins og nál á þskj. 304 ber með sér, hefir menntmn. orðið sammála um að leggja til, að frv. þetta verði samþ. óbreytt. Frv. þetta kom fyrst fram í hv. Ed. og var flutt þar af hæstv. atvmrh., og hét þá frv. til l. um breyting á og viðauka við lög nr. 37 1929, um héraðsskóla. Við meðferð efri deildar tók það nokkrum breytingum. Í fyrsta lagi þannig, að í stað þess að hafa þessi ákvæði um breytingu á héraðsskólalögunum bundin við það að Reykjanesskóla í Norður-Ísafjarðarsýslu yrði ákveðinn ríkisstyrkur, þ. e. styrkur til unglingafræðslu, þá varð það niðurstaðan, að fella skyldi skólann inn í héraðsskólalögin, og gera hann þar með að héraðsskóla. Þá var og önnur breyt., sem gerð var á frv. í Ed., sú að taka skyldi annan stað, þar sem að vísu er enginn skóli nú, inn í héraðsskólalögin, en það er Varmahlíð í Skagafirði. Frá sjónarmiði n. var ekkert því til fyrirstöðu, eða enginn ágreiningur um það, að taka skyldi Reykjanesskóla upp í héraðsskólalögin. Hitt gat aftur orkað tvímælis, hvort rétt væri að taka Varmahlíð í Skagafirði strax upp í lögin, og mun fyrirvari eins nm. byggjast á því atriði.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég benda á, eins og sjá má á nál. á þskj. 304, að enda þótt n. ætlist til, að Reykjanesskóli verði jafnrétthár öðrum héraðsskólum hvað styrki snertir, þá ber ekki að skilja það svo, að það leysi héraðið frá loforðum sínum um stofnfjárframlög gagnvart hinum gamla héraðsskóla á Núpi í Dýrafirði. Að óreyndu er að vísu ekki ástæða til þess að óttast um vanefndir í því efni, en þó mun það svo, að eitthvað sé ógreitt ennþá af því, sem lofað var.