15.04.1937
Neðri deild: 39. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

65. mál, héraðsskólar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Það var ræða hv. 9. landsk., sem gaf mér tilefni til að taka hér til máls. Hann var að bera saman Varmahlíð og Reykhóla. Ég held, að þessi samanburður hans sé ákaflega rangur, og að erfitt sé að bera þessa tvo staði saman sem skólastaði; svo ólíkir eru þeir. Annar liggur í miðju héraði og í næsta umhverfi í kringum hann, í ca. 50 km. hring, búa um 700 bændur úti á nesi og í álíka hring í kringum hann búa eitthvað á annað hundrað bændur. Á öðrum staðnum er hitasvæði og jörðin er eign ríkisins. Hinn staðurinn er eign dánarbús, sem hingað til hefir haldið þeirri jörð í mjög háu verði, að ég ætla, og hefir verið að reyna að semja við ýmsa um kaup á jörðinni. Hvað mannvirki snertir mun eignin vera mjög úr sér gengin. Þarna er því mikill aðstöðumunur. — Enn er sá aðstöðumunur, að stofnaður hefir verið félagsskapur, sem að standa nokkur hundruð manna, til þess að hrinda í framkvæmd skólastofnun að Varmahlíð. Engu slíku er til að dreifa að því er Reykhóla snertir, ekki einu sinni samþykkt sýslufundar. Svo gerólík er aðstaðan.

Ég trúi ekki öðru, hvað sem hv. 9. landsk. kann að segja, en að hv. þdm. hafi þann kunnugleika til þessara staða, að þeir sjái þennan mismun og láti Varmahlíð vera í frv., þar sem hún er komin, en felli Reykhóla niður, því að það mál er ekki tímabært ennþá.