15.04.1937
Neðri deild: 39. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

65. mál, héraðsskólar

*Sigurður Einarsson:

Ég ætla fyrst að víkja nokkrum orðum að því, sem hv. 2. þm. Árn. sagði, en áður vil ég gjarnan taka það fram, sem ég hefi lýst í fyrri ræðu minni, að afstaða mín til þessa máls hefir ekki að neinu leyti markazt af óvilja til þess, að Skagfirðingar fengju á sínum tíma sinn héraðsskóla, heldur hefir hún markazt af því, að ég tel, að það verði að gæta réttlætis í framkvæmd þessara mála.

Það dugir ekki að einblína á einstök héruð; það verður að hafa yfirlit yfir heildina alla, þegar verið er að ráðstafa því fé, sem við teljum okkur fært að leggja fram til bygginga og rekstrar skóla. Átök síðari ára hafa hnigið að því, að greiða tiltölulega betur úr þörfum sveitahéraðanna heldur en þörfum bæja og kauptúnanna. Þetta fullyrði ég óhikað; og þó að ég sé engan veginn að telja það eftir, þýðir þetta það að mínum dómi, að nú beri að snúa geiri sínum þangað, sem þörfin er meiri fyrir.

Ég vil í þessu sambandi benda á nokkur atriði. Hvað er að segja um húsmæðraskólann á Laugalandi? Er hann kominn eða er hann ekki kominn? Hann er kominn fyrir ríkuleg framlög af hálfu hins opinbera. — Hvað er að segja um húsmæðraskólann í Reykjavík? Er hann kominn eða er hann ekki kominn? Hann er ókominn. Það er ekkert búið að leggja til hans af hálfu hins opinbera.

Eru Austfirðingar búnir að fá sinn húsmæðraskóla? Hafa uppsveitir Austurlands fengið sinn héraðs- og unglingaskóla? Já, þeir hafa fengið hvoratveggja skólana með miklum framlögum frá því opinbera. — Er Norðfjörður búinn að fá sinn skóla jafnvel útbúinn? Nei. Hvorir hafa meiri ástæðu til að kvarta? Hinir síðarnefndu. — Er Laugarvatnsskólinn kominn upp? Er hann nothæfur fyrir fólkið? Það vita allir, að til hans hefir verið lagt fé í ríkulegum mæli. Er Vestmannaeyjaskólinn kominn upp? Það hefir ekki einn eyrir verið lagður til hans. Vestmannaeyjar eru þó enganveginn fámennt hérað, og þörfin fyrir að hafa æskumannaskóla þar er ekki minni en í sveitahéruðum Árnessýslu.

Hvað er svo að segja um Reykholtsskóla, Núpsskóla, Reykjanesskóla og Staðarfellsskóla? Og hvað er að segja um Ísafjarðarskólann? Hann er ókominn. Það er búið að leggja stórfé til fjögra héraðs- og ungmennaskóla í Vestfirðingafjórðungi, en höfuðstaður Vesturlands er ekki búinn að fá sinn skóla. Hvað er svo að segja, ef við förum til Norðurlands? Ég ætla að hafa sama lagið þar. Mér heyrðist hv. 2. þm. N.-M. vera ákaflega kunnugur á Norðurlandi, og efa ég það ekki, því að í fyrravor voru auglýstar hrútasýningar þar, og það var tekið fram, að þessi hv. þm. yrði á öllum sýningunum. Hann hlýtur því að vera nokkuð kunnugur á Norðurlandi. Hefir hann rekið sig á Reykjaskóla? Hefir hann rekið sig á Hólaskóla? Hefir hann rekið sig á húsmæðraskólann á Laugalandi? Og hefir hann rekið sig á héraðs- og húsmæðraskólann á Laugum? — Það eru því ekki færri en fimm skólar, sem hann hefði átt að slangra utan í, ef hann hefir verið ferðalagi um Norðurland. Hvernig er með gagnfræðaskólann á Akureyri? Hvað er búið að leggja til hans? Ekki nokkurn hlut. Akureyringar mega finna sig í sama hlutskiptinu eins og aðrir: að bíða.

Þetta er ekki sagt af því, að ég sé að hafa á móti því, að þetta átak hefir verið gert í skólamálum sveitanna, en það er barnaskapur að berja sér á brjóst og láta eins og ekkert hafi verið gert fyrir þær. — Menn geta nú af þessari litlu hringferð, sem ég er búinn að fara í kringum landið, gert sér nokkra hugmynd um, hvernig háttað er í þessum efnum og hve óréttmætt það sé, að frá fulltrúa hér á Alþ. komi fram krafa um það, að ekki sé verið að bæta inn í l. bara eftir geðþótta einstakra manna nýjum héraðsskólum í landsfjórðungi, þar sem fimm ungmennaskólar sveitanna eru fyrir, áður en samskonar vilji til þess að leysa skólamál bæja og kauptúnanna hefir komið í ljós í framkvæmdinni.

Ef litið er á þessi mál, þá verð ég að segja eins og er, að ef það er meiningin hjá hv. Alþ. að halda áfram á sömu braut, þ. e. a. s. að láta skeika nokkuð að sköpuðu um það, hvað fært þykir að gera til þess að hrinda áfram málum gagnfræðaskóla kaupstaðanna, en halda áfram að byggja héraðsskóla, þá er sjálfsagður hlutur að láta Reykhóla koma næst á eftir Varmahlíð.

Ég skal síðar í ræðu minni víkja nokkuð að því, á hve miklum rökum það er byggt, þegar hv. framsóknarmenn eru að níða þennan stað niður og segja, að hann geti ekki komið til mála í þessu sambandi. Það eru t. d. engin rök í því máli, eins og ég hygg, að hv. 2. þm. N.-M. hafi verið að segja, að það væru tveir skólar fyrir á Vestfjarðakjálkanum; en honum blöskrar það ekki í minnsta máta að mæla með því að byggður verði nýr skóli í landsfjórðungi, þar sem fimm eru fyrir.

Ég held, að það hafi verið hv. 2. þm. Árn., sem sagði, að ef litið væri á svæðið frá Reykjum að Laugum, þá væri langmest þörf á að setja upp skóla í Skagafirði. — Á þessu svæði eru þó, eins og ég áður nefndi, Reykjaskóli, Hólaskóli, Laugalandsskóli og að Laugum bæði héraðs- og húsmæðraskóli. Þegar á þetta er litið, get ég ekki sagt með samanburði við önnur héruð, að æskumenn og unglingar í Norðlendingafjórðungi séu í meira svelti um skóla.

Hvað er þá að segja um staði, sem engan skóla hafa fengið, fjölmenna staði, þar sem verið er að basla við að reka skóla en alla aðstöðu vantar? Hvað segir ekki einn gagnfræðaskólastjóri við mig á dögunum, maður, sem hefir rekið gagnfræðaskóla með miklum myndarbrag og hefir tekið upp nýbreytni í skólastörfum, þ. á m. ýmiskonar nýbreytni í vinnubrögðum, smíði og þessháttar? Hann segir: Ég hefi orðið að pakka niður áhöldum, sem búið var að kaupa, og láta kunnáttumann fara vegna þess, að það var ekkert pláss fyrir hann. — Það má vel vera, að hv. 2. þm. Árn. hafi nokkuð til síns máls, er hann segir, að kaupstaðirnir og kauptúnin hafi ekki orðið útundan um framlög til menntamála; en þetta kemur í raun og veru mínu máli ekkert við. Ef hann telur saman þær krónur, sem fara til skólahalds í bæjum og kauptúnum annarsvegar, og hinsvegar þær krónur, sem fara til skólahalds í sveitum, þá dylst mér ekki, að hann fær hærri tölu út fyrir þá skóla, sem eru í bæjum, ef hann byrjar á háskólanum og fer svo allt niður í iðnskóla; en ef hann miðar framlög ríkisins til þess að byggja skóla og ganga frá þeim hlutfallslega við mannfjölda, þá hygg ég, að síðustu ár sýni, að sveitahéruðin hafi ekki yfir neinu að kvarta; og stofnfjárframlag Laugarvatnsskóla sýnir, að það er enginn smápeningur, sem búið er að leggja til hans. Það, sem mestu máli skiptir, er það, hvað gert sé til þess að gera skólana starfhæfa.

Ræðu hv. þm. V.-Sk. þarf ég litlu að svara. Hann taldi mig ekki hafa skilið héraðsskólalögin til hlítar. Ég kann að hafa komið miður heppilega orðum að því, sem ég ætlaði að segja. Ég veit vel, að þau voru sett sem l. um, að á þessum og þessum stöðum skyldi stofna skóla; en nú fyrst er gerð tilraun til að auka við það plan, sem lá fyrir í öndverðu, og þá finnst mér, að það megi ekki minna vera en að menn geri sér grein fyrir því, hver eigi að vera stefnan í þessum málum, þegar búið er að koma upp þeim skólum, sem héraðsskólalögin ákváðu.

Bæði þessi hv. þm. og einkum hv. 2. þm. N.-M. vildu færa það fram sem sérstaka ástæðu með Varmahlíð, en móti Reykhólum, að þarna væri stofnaður fjölmennur félagsskapur, en engu slíku væri til að dreifa að því er Reykhóla snerti.

Ég er ekki meðlimur í þessum félagsskap og veit því ekki mikið um hann, en einn af þeim mönnum, sem framarlega hefir staðið í þessum félagsskap og þykir gaman að trúa mér fyrir sínu pólitíska leynibralli, hefir sagt mér, að félagið væri meðfram stofnað til þess að angra pólitískum andstæðing. Ég ber enga ábyrgð á, að þetta sé satt, og ég vildi vona, að félagsskapurinn væri allt annars eðlis; en það er þessum félagsmanni að kenna, hafi mér orðið það á að skoða þetta mál í aðra röndina sem pólitíska brellu, en ég vildi vona, að þetta mál væri ekki þannig vaxið.

Um Reykhóla er það í skemmstu máli að segja, að um þann stað sem skólastað er ekki til neinn félagsskapur í augnablikinu, en einkennilegt er það, ef menn hafa aldrei heyrt um Reykhóla talað sem vænlegan stað til þess að hafa þar skóla eða reka þar einhverja opinbera starfsemi. Hv. þm. V.-Sk. taldi, að Reykhólar væru e. t. v. hæfur staður fyrir letigarð. Ég vona, að í þessum orðum felist ekki nein niðrun um staðinn, og ég vona, að í þessu felist ekki nein aðdróttun til þeirra bænda, sem búið hafa á Reykhólum, en orðið að láta af búskap sínum eftir mikið fjártjón af því, hve jörðin er erfið.

Hv. 2. þm. N.-M. segir, að Reykhólar séu ákaflega einangraður staður. Það er nú svo. Ég veit ekki betur en nú í sumar verði byggð brú yfir Brúará í Reykhólasveit, og þegar búið er að brúa Brúará, er svo að segja sjálfgerður vegur, harðar malaröldur, langan veg inn eftir Barmahlíðinni, og úr því er svo akfær vegur heim að Reykhólum. Svo að það er tímaspursmál, hvenær Reykhólar liggja í þjóðbraut, og ég vil vona, að Barðastrandarsýsla hafi borið það oft á góma undanfarin ár, að það verði ekki lengur talið sjálfsagt að gera ráð fyrir því, að hún verði alltaf afskipt um allar framfarir í samgöngum og öðrum hlutum. Það er áreiðanlegt, að menn þurfa ekki að kvíða því, að ekki verði hægt að komast að Reykhólum vegna samgönguleysis. Annars fannst mér undarlegt að hlusta á hv. 2. þm. N.-M. Það var eitthvað hálfkyndugt — ekki í merkingunni kind. Hann er að tala um þessa einangruðu Reykhóla, en svo fer hann að tala um krossgötur. Ég vil spyrja hv. þm., hvort hann haldi, að fólk gangi í skóla af því, að það sé að slangra eftir ákaflega fjölförnum leiðum, reki sig á skólana og komi þar við án þess að vita, að þeir eru þar. Ég get fullvissað hv. þm. um, að fólk fer ekki í skólana af því, að það sé að flakka á þjóðvegunum, og reki sig þar á skólana.

Hv. þm. vildi halda því fram, að það væru mannvirki í Varmahlíð. Ég veit ekki um þau mannvirki, og ég held, að það fari ekki miklar sögur af þeim. Það kann að vera þar eitthvert hús, en ég hygg, að skóli í Varmahlíð mundi ekki hafa mikil not af þeim mannvirkjum. Þó að Reykhólar búi ekki að miklum mannvirkjum, þá er því til að svara, að það er siður, þegar efna á til skóla, að ráðast í að byggja vandað og stórt hús. Þó að Varmahlíð sé góður staður, geri ég ekki ráð fyrir, að hv. 2. þm. N.-M. ætlist til þess, að nemendurnir legðust í útigang, svo að í þessu sambandi er ekki vit í því að tala um, að mannvirki á slíkum stöðum beri af mannvirkjum á öðrum stöðum, þegar það er vitað, að það verður að byggja stórhýsi fyrir tugi þúsunda króna til þess að hægt sé að koma skólanum upp. Svo heyrðist mér hv. þm. vera að tala um, að þetta ætti að verða alþjóða eða alþjóðar menntastofnun. Ég hefði haldið, að þetta yrði bara venjulegur héraðsskóli. Það, sem ég vildi leggja áherzlu á í þessu sambandi, er það, að það er ekki með neinni sanngirni hægt að færa fram nein rök fyrir því, að Varmahlíð skuli gerð að héraðsskóla, en Reykhólar ekki. Það er ekki hægt að færa rök fyrir því, að landsfjórðungur, með almennan menntaskóla og gagnfræðaskóla í kaupstað, landsfjórðungur, þar sem búið er að byggja fimm æskumanna- og æskukvennaskóla, hafi meiri þörf fyrir nýjan héraðsskóla en landsfjórðungur, sem á ekki nema tvo. Að öðru leyti er engin ástæða til þess að vera að gera bandorm úr héraðsskólal. á þessu stigi málsins. Það er meiri þörf á því frá sjónarmiði allra, sem vilja líta á þetta með sanngirni, að jafna þann aðstöðumun, sem er um aðbúnað að því er skólana snertir, milli margra bæja og kauptúna annarsvegar og sveitanna hinsvegar. Og til þess að fyrirbyggja misskilning og til þess að þessi afstaða kæmi fram, hefi ég borið fram brtt. um að fella Varmahlíð burt úr bandorminum, en ef það á að gera bandorm úr héraðsskólalögunum, þá heimta ég fyrir hönd Breiðfirðinga, sem að þeirra dómi hafa alveg eins rétt á því að fá héraðsskóla og aðrir, að Reykhólar verði næsti liðurinn í bandorminum, svo geta hv. þdm. gert hvað sem þeim sýnist, því að ég hefi ekki vald til að skipa þeim fyrir verkum. Þetta er hið eina sanngjarna, sem en er að ræða í þessu sambandi.