15.04.1937
Neðri deild: 39. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

65. mál, héraðsskólar

*Jón Sigurðsson:

Ég skal verða við tilmælum hæstv. forseta og verða stuttorður. — Ég var ekki viðstaddur, þegar þessar umr. byrjuðu, og hefi því ekki heyrt allt, sem sagt hefir verið, en ég vil ekki láta þessari umr. ljúka svo, að ég segi ekki örfá orð um málið. Mér skilst á því, sem farið hefir fram, og hv. 2. þm. Skagf. m. a. hefir gert grein fyrir, að stofnað hafi verið til félagsskapar í Skagafirði til þess að koma þessu máli áfram. Ég ætla ekki að endurtaka það, en ég skal að vísu játa, að það er ekki fullkomið samkomulag um það, hvar þessi skóli sé bezt settur; en það er ekki í mínum augum neitt aðalatriði. Það er aðalatriðið að fá viðurkenningu Alþingis fyrir því, að Skagfirðingar hafi rétt á þeim stuðningi frá ríkisstj., sem héraðsskólar yfirleitt eiga kröfu á til bygginga. Hitt álít ég, að sé frekar innanhéraðsmál, að koma sér saman um, hvar bezt sé að hafa skólann, t. d. hvort hann ætti heldur að vera í Varmahlíð eða kannske í sambandi við bændaskólann á Hólum, til þess að vernda þann gamla fornfræga stað okkar Skagfirðinga. Þetta vildi ég taka fram áður en ég greiði atkv. um þetta mál. Ég er eindregið á móti því, að þessi liður verði felldur niður, og vænti ég þess, að þingið samþ. frv. eins og það liggur fyrir.