16.04.1937
Neðri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (801)

65. mál, héraðsskólar

*Bjarni Bjarnason:

Ég ætla ekki að beita mér á móti þessari brtt. beinlínis, því ég efa ekki, að Reykhólar séu ágætur skólastaður. En mér finnst, eins og ég gat um í gær, allmiklu óheppilegra að setja skólana, sem í sveitirnar koma, of þétt, og á þeim grundvelli gerði ég grein fyrir því í gær, að ég taldi vel fært að fella Varmahlíð inn í héraðsskólal., en vera á móti Reykhólum sem skólasetri að svo komnu. Ef skóli kæmi á Reykhólum, þá yrði það 4. héraðsskólinn fyrir Vestfirði, ef Reykjaskóli í Hrútafirði er talinn með, sem að vísu er ekki beinlínis á Vestfjörðum, en er þó byggður a. n. l. fyrir Vestfirði. En á Suðurlandi öllu austanfjalls er t. d. ekki nema einn einasti héraðsskóli, þó að hann sé að vísu nokkuð stór. Þá mundi sanngirni nær að ákveða skólasetur við einhvern jarðhitastað á Suðurlandi heldur en að ákveða að svo komnu skólastað á Reykhólum í Reykhólasveit. Það mundi áreiðanlega vera haganlegra fyrir þjóðina í heild sinni. Á þessum grundvelli eingöngu finnst mér brtt. hv. 9. landsk. ekki vera fullkomlega sanngjörn.