16.04.1937
Neðri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (803)

65. mál, héraðsskólar

*Páll Zóphóníasson:

Ég ætla ekki að endurtaka það hér, sem ég sagði í gær um þetta mál. Ég benti þá á, hver munur væri á aðstöðu þessara tveggja staða sem skólasetra. En ég skal til viðbótar benda á það nú og biðja menn að athuga það, að þessi staður, sem nú er till. um, að Alþ. ákveði sem skólastað, barna vestur í Reykhólasveit, nefnilega Reykhólar, þeir eru eign dánarbús. Það væri því náttúrlega sköpuð góð aðstaða að ýmsu leyti fyrir erfingja þessa dánarbús, ef ákveðið væri nú á þessu þingi, að þarna skyldi hafa skóla, svoleiðis að aðrir gætu ekki komið til greina en ríkið til þess að gerast kaupendur jarðarinnar. En það er a. m. k. miður viðkunnanlegt að ákveða, að þarna verði skóli, áður en nokkur undirbúningur hefir farið fram heima fyrir og áður en ríkið hefir nokkur umráð yfir jörðinni. Þetta dánarbú hefir reynt að selja jörðina, bæði innlendum og erlendum mönnum, fyrir hátt verð, en ekki tekizt, enda allt í niðurníðslu. Það myndi því verða mjög góð hjálp til erfingja þessa dánarbús, ef hv. Alþingi ákvæði nú, að þarna skyldi koma skóli, svo ríkið yrði að kaupa, og seljendur gætu skammtað söluverðið. Ég ætla, að hv. þm. hugsi sig tvisvar um áður þeir gera það, því það má öllum ljóst vera, að staðurinn er ekki heppilegur sem skólastaður og ekki vitanlegt um neinn undirbúning né áhuga heima fyrir til að hrinda skólastofnun þar áfram.