22.02.1937
Neðri deild: 7. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í B-deild Alþingistíðinda. (815)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Pétur Ottesen:

Ég verð að segja það, að mér finnst það bera vott um ekki svo litla dirfsku hjá flm. þessa frv., að leggja til, að gersamlega sé úr gildi numið það bann gegn dragnótaveiði í landhelgi, sem felst í lögunum frá 1928, því að það felst raunverulega í þessu frv. Ef þetta frv. næði fram að ganga, gilti aðeins bann gegn skarkolaveiði í landhelgi á þeim tíma, sem sú fisktegund fer út af grunnmiðunum, eftir því sem fiskifræðingarnir segja. Það, að flm. þykjast vilja halda í þetta bann, er því ekkert annað en tóm blekking, svo framarlega sem þeir hafa einhverja nasasjón af því, hvar þessi fisktegund elur aldur sinn hinar ýmsu árstíðir. Þess vegna ber að líta á þetta frv. sem fullkomna útstrikun á þeim lögum um bann gegn dragnótaveiði, sem gilt hafa alllengi.

Ég sagði, að þetta frv. væri flutt af allmikilli dirfsku nú, þegar á það er litið, að á síðasta þingi var í þessari hv. d. flutt frv., sem að vísu rýrði bannið við dragnótaveiðinni, en gekk þó engan veginn eins langt í því að rýra verndun landhelginnar sem þetta frv. gerir, og að afdrif þess frv. urðu þau, að þetta var fellt með nafnakalli með 18:7 atkv. Það voru aðeins 7 hv. þm., sem þá sögðu já við því, að rýra verndun landhelginnar eins og þar var farið fram á. Það hefir vitanlega ekkert komið fram síðan í fyrra, er réttlæti það, að l. væri breytt eins og þá var farið fram á, hvað þá að nema þau alveg úr gildi, eins og raunverulega er farið fram á í þessu frv. Mikið fremur hefir það gerzt í þessum efnum, er styrkir þá stefnu, að ástæða væri til að herða á þessum varnarráðstöfunum gegn þeirri afskaplegu rányrkju á fiskimiðunum, sem rekin hefir verið í hundruð ára bæði hér við land og annarsstaðar. Það er nú orðin almennt viðurkennd nauðsyn, að hafa nokkurt svæði friðað fyrir ungviðið við hvert fiskveiðaland gegn þeim veiðiaðferðum, sem sannað er, að eru ungviðinu hættulegar, og það hafa aldrei verið uppi jafnháværar kröfur á Norðurlöndum og nú, síðan í fyrra, um að vernda ungviði fyrir botnvörpu og dragnótaveiði. Á fundi, sem haldinn var af fulltrúum frá öllum ríkjum Norðurlanda, nema Íslandi, því miður, var ákveðið, að halda áfram samningum um stækkun landhelginnar til verndunar fiskstofninum. Og þessa samninga á að taka fyrir á sumri komanda.

Nú verður Ísland allra ríkja mest fyrir átroðningi á sinni landhelgi af botnvörpuveiðum, en þá á einmitt að grípa til öflugra ráðstafana hér, sem verða einmitt til þess að auka þennan ágang, samtímis og nágrannaríkin færa út sína landhelgi. Með því að opna landhelgina hér á sama tíma og nágrannaþjóðir vorar þrengja sína landhelgi, er verið að bjóða samveldisþjóðunum Dönum og Færeyingum að nota sér þessi gæði, sem þeir, eins og stendur, og næstu ár, hafa jafnan rétt til við okkur. Það er harla raunalegt að vita til þess, að hér skuli heyrast slíkar raddir, — að hér skuli vera til menn, sem vilja opna fyrir útlendingum okkar landhelgi, á sama tíma og þessir sömu útlendingar eru að færa út sína eigin landhelgi. Í stað þess að taka undir þá sömu stefnu hér heima, verður ekki annað séð á frv. þessu en að hér sé engin þörf á slíku. En sú samþykkt, er síðasta Alþingi gerði í þessu efni, tók nú alveg af skarið um það, hvernig þingið lítur á þetta mál; það er því fullvíst, að þingið fellir frv., og væri ástæða til að gera það þegar í stað, ekki sízt þar sem í grg. frv. er gengið lengra en í sjálfu frv. um að afnema bannið gegn dragnótaveiði í landhelgi. Í grg. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Það virðist óforsvaranlegt, að löggjöfin standi lengur í vegi fyrir því, að landsmenn geti notfært sér hverskyns gæði sjávarins, sem geta orðið þjóðinni til hagsældar.“

Ég býst ekki við, að nokkur maður sé í efa um það, að nokkur stundarhagnaður væri að því að leyfa togurunum að skafa landhelgina; það mundu nokkur skip fá betri sölu í Englandi, ef þau fengju að veiða innan landhelginnar, heldur en þau hafa nú með því að veiða utan hennar. En það yrði skammgóður vermir. Slíkt mundi áreiðanlega flýta stórkostlega fyrir eyðingu fiskstofnsins, sem nú vofir yfir og viðurkennd er af öllum fiskiveiðaþjóðum Norðurálfunnar með háværari og háværari kröfum um frekari vernd fiskstofnsins. Frv. þetta er því átakanlega varhugavert, og sú hugsun, sem fram kemur í grg., ennþá varhugaverðari og ætti allra sízt að reka höfuðið upp nú á þessum tímum, þegar mest ríður á, að allir landsmenn séu samhentir um frekari verndun fiskimiðanna.

Ég hefi svo ekki mikið meira um frv. að segja. Það væri langsamlega réttast að fella það þegar við 1. umr. Ég veit, að það fer aldrei út úr d., en það gæti haft sína þýðingu að fella það strax. Þó getur verið, að einhverjum þyki það kurteisisskylda að vísa því til n., og verður náttúrlega að sæta því, ef meiri hl. vill það, en ég veit, að mönnum er fullkomlega ljóst, að hinnar fyllstu varúðar er þörf í þessu efni.

Það er ekki nóg, að hér á að afnema alveg veiðibannið, heldur á einnig að gera lögbrjótunum hægara fyrir en áður með því að lækka sektir. Nú þykir ekki hæfa lengur, að hinir brotlegu menn fái ekki keypt hin upptæku veiðarfæri strax sama dag og þau eru af þeim tekin. Það þótti þó á sínum tíma ekki rétt að gefa lögbrjótunum kost á slíku. Þessi breyt. yrði til stórra hagsbóta fyrir lögbrjótana, sérstaklega fyrir Dani og Færeyinga, sem geta átt óhagstæðari aðstöðu en landsmenn til þess að útvega sér ný veiðarfæri, ekki sízt ef þeir væru staddir á afskekktum stöðum, eins og norður í Öxarfirði eða Skjálfanda eða austur á Héraðsflóa, þar sem slíkar vörur eru ekki fyrirliggjandi. Þessum mönnum væri það því sérstaklega hagkvæmt, að geta fengið veiðarfærin aftur við hamarshögg, hjá því sem að þurfa að sigla langar leiðir til þess að fá sér ný veiðarfæri.

Með þessu frv. er því bæði Dönum og Færeyingum tryggð aðstoð til þess að geta komið hingað með farfuglunum á vorin og farið með þeim á haustin og skafið landhelgina allt sumarið. Fyrir þá er slík löggjöf sérstaklega hagkvæm.

Ég ætla svo ekki að fara fleiri orðum um frv. Ég veit, að flestum muni vera fullkomlega ljóst, hve hættulegt það er, eins og nú stendur á, og hvílík ábyrgð fylgir því að veita frv. lið.