22.02.1937
Neðri deild: 7. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (817)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Flm. (Jón Ólafsson):

Ég nenni ekki að fara að munnhöggvast við hv. þm. Borgf. út af þessu máli. Við höfum gert það áður, og ég verð að álíta, að ég hafi haft á réttu að standa.

Hv. þm. Borgf. álítur það höfuðsök, að bera fram á þingi mál, sem hefir verið fellt á næsta þingi á undan. Ég held, að hv. þm. þurfi ekki að fara langt til baka í sögu Alþingis til þess að sjá, að einmitt beztu málin hafa orðið að sæta þeirri meðferð, að vera borin fram þing eftir þing, með þeim rökum, sem þeim hafa fylgt á hverjum tíma. Og ég er viss um, enda mun það sýna sig, að þetta mál verður samþ. Það verður máske ekki gert á þessu þingi, en það verður gert, þegar mönnum er orðið ljóst, hver nauðsyn þetta er fyrir þjóðina.

Hv. þm. Borgf. hefir gengið manna bezt fram í skuldaskilamálunum og kreppuráðstöfununum. En hvað eru betri kreppuráðstafanir en að benda á og koma með nýja bjargræðisvegi, eins og t. d. þetta, sem ég álít til stórra hagsbóta fyrir smábátaútveginn, sérstaklega þar sem nú er komin meiri þekking og tækni til þess að hagnýta þessa veiði heldur en áður var. Ég veit, að hv. þm. Borgf. hlýtur að sjá, hvílíkt bjargráð þetta er, þó að hann berji höfðinu við steininn.

Hv. þm. Borgf. var að tala um, að nú væri hreyfing uppi í heiminum um að spara nytjafiskinn til þess að ganga ekki eins að stofninum eins og gert hefir verið. Það getur vel verið, að okkur hafi verið boðin þátttaka um það, sem hann líklega meinar. En ef samkomulag verður um þetta, þó er það engin minnkun fyrir okkur að nema úr gildi þau ákvæði, sem koma í bága við það samkomulag, sem kann að verða. Ég hefi aldrei verið svo trúgjarn, að ég tryði því, að við gætum komið því í gegn að friða Faxaflóa. Og ég er algerlega á móti því, því að ég álít, að þjóðin eigi að nota sér þá veiði, sem býðst, hvar sem er í sjónum.

Hv. þm. virðist ekki vita það, að leggur botnvörpumöskvans er ekki nema 30 mm., en leggurinn í möskva dragnótarinnar er 50 mm.

Þannig getur komizt í gegnum dragnótina hálfvaxinn fiskur. Það er sá mikli munur, sem hv. þm. Borgf. virðist ekki hafa gert sér grein fyrir.

Þá talaði hv. þm. um, að það væri reginvitleysa af mér, að gera ráð fyrir 2500 gullkr. lágmarkssekt fyrir að fara í landhelgina. En þegar hv. þm. gætir að því, að það eru aðallega litlir bátar, sem stunda þessar veiðar, og því ekki um mikið verðmæti að ræða hjá hverjum og einum — á síðasta ári voru 15 bátar kærðir, og þeir voru allir svo aumir, að þeir áttu ekki fyrir skuldum —, hvað er þá hægt að gera annað en að gefa eftir og láta sektina niður falla? Þar með eru þessi sektarákvæði alltof há í samanburði við þau verðmæti, sem til staðar eru, svo að ekki nær nokkurri átt að láta slíkt sjást í lögum.

Lögin voru upphaflega sett 1928 af hræðslu við Dani, eins og hv. þm. Borgf. hefir tekið fram. En hvernig var það með Dani fyrir 1928? Þá höfðu þeir sitt frelsi í þessum efnum. Hvað gerðu þeir þá? Og hvað hafa þeir gert síðan? Það hafa ekki komið til landsins frá Danmörku, að ég held, fleiri en 5–8 bátar á sumri. Síðastl. sumar munu hafa verið 8 bátar hér við land, og voru flestir af þeim fyrir norðan. Hér fyrir sunnan voru á annað hundrað ísl. bátar. Ættum við því að fara að kippa að okkur hendinni í þessum efnum til þess að varna Dönum að koma hingað, þar sem þeir nota þetta hverfandi lítið? Það er tekið fram af þeim, sem settu lögin 1928, að þau séu beinlínis sett til þess að varna Dönum að nota sér landhelgina, en eftir 31. ág. er leyfilegt fyrir þá að koma hingað.

Þá var hv. þm. Borgf. að tala um, að ég vissi lítið um lifnaðarhætti kolans í sjónum. Ég verð nú að viðurkenna, að það er rétt, en ég hefi þó lesið það, sem skrifað hefir verið um þetta, en það virðist hv. þm. Borgf. ekki hafa gert. Eftir því sem skrifað hefir verið um þessi mál, þá er talið, að hrygningartíminn sé frá áramótum og fram í apríl, og jafnvel ekki út mánuðinn. — Það er einmitt gert ráð fyrir, að dragnótaveiðarnar byrji ekki fyrr en um 20. apríl, og þá er álit fiskifræðinganna, að hrygningartíminn sé liðinn hjá. Þetta ætti því hv. þm. Borgf. að kynna sér, áður en hann talar um, að ég viti ekkert um ferðalag kolans í sjónum.

Það er ekki ástæða til að tala um þetta aftur og fram á þessu stigi. En ég vil taka það fram, að það lýsir sér engin ósvífni hjá okkur flm. í því, að þora að bera fram á næsta þingi á eftir mál, sem hefir verið fellt á þinginu á undan. Allir vissu, hvernig var um bannmálið, þetta mikla hitamál, sem lá fyrir þinginu þing eftir þing. Bannmennirnir töpuðu þrátt fyrir sinn barning. Eins mun verða um þetta mál; það verður ekkert nema barningurinn, svo fellur allt í ljúfa löð fyrir þeim, sem vilja koma góðu til leiðar. — Þó að hv. þm. Borgf. vilji segja eitthvað meira við þessa umr., þá ætla ég að geyma að svara því, þangað til við 2. umr.