22.02.1937
Neðri deild: 7. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Finnur Jónsson:

Efalaust rekur marga hv. þm. minni til þess, að það átti að halda fiskifræðingaþing í London á síðastl. ári, og það var gert að árásarefni á ríkisstj., að það mætti ekki fulltrúi fyrir Ísland. Nú upplýstist það að vísu, að ekki hafði verið boðið neinum frá Íslandi með þeim fyrirvara, að unnt hefði verið að senda mann þangað. En blöð sjálfstæðismanna gerðu út af þessu veður mikið og settu það í samband við þá till. um að friða Faxaflóa, sem sjálfstæðismenn fluttu á síðasta þingi, og töldu, að þar hefðu e. t. v. verið möguleikar á að koma þessu mikilsverða máli fram. Nú kemur hv. 1. þm. Rang., sem ber höfuð og herðar yfir sína flokksmenn í sjávarútvegsmálum, og lýsir yfir, að sér hafi aldrei dottið í hug, að unnt yrði að fá Faxaflóa friðaðan, og hann sé í efa um, að hve miklu gagni það mundi verða, þó að slíku fengist framgengt. Hv. 1. þm. Rang. hefir verið svo hreinskilinn að svipta rækilega grímunni af þeim skrípaleik, sem hans flokkur hefir leikið í þessu efni.

Hv. 1. þm. Rang. upplýsti það mjög réttilega, að það væri engin sönnun fyrir réttmæti nokkurs máls, hversu snemma það gengi fram hér á Alþingi, enda hefir það verið svo, að þau réttlætismál, sem Alþfl. hefir komið fram með hér á þingi, hafa verið flutt hér mála oftast, eins og t. d. réttlátar og sanngjarnar breyt. á framfærslulöggjöfinni, réttmætar breyt. á kosningal. og réttlátari breyt. á kjördæmaskipuninni en áður áttu sér stað. Ég geri ráð fyrir, að það fari eins um þetta mál og ýms mannréttindamál, sem Alþfl. hefir borið fram hér á þingi, að það taki langan tíma fyrir hv. þm. að átta sig á því, að þetta er nauðsynjamál, sem að lokum verður afgr. með miklum meiri hl. þingheims, eins og ýms þau mál, sem Alþfl. hefir flutt hér undanfarin ár og mætt hafa mjög mikilli mótspyrnu þingheims fyrst í stað, en að lokum verið samþ. með yfirgnæfandi meiri hl. atkvæða.

Það, sem m. a. bendir til þess, að þetta mál muni nú ná fram að ganga, er það, að tveir mikilsráðandi hv. þm. Sjálfstfl. bera það fram nú í þingbyrjun, og ennfremur það, að á nýafstöðnu flokksþingi framsóknarmanna var samþ., að nauðsynlegt væri að taka lögin um bann gegn dragnótaveiði í landhelgi til nýrrar athugunar og endurskoðunar. Þetta bendir til þess, að þetta mál muni loksins fá sæmilega afgreiðslu á þessu þingi.

Hv. þm. Borgf. heldur því fram, að hann og þeir hv. þm., sem hingað til hafa greitt atkv. á móti því, að þessum lögum yrði breytt, hafi bjargað dýrmætum hlut fyrir landsmenn, en sá dýrmæti hlutur er ekki neitt annað en það, að komið hefir verið í veg fyrir, að mikilsverðir atvinnumöguleikar kæmu að notum fyrir landsmenn á þeim vandræðatímum, sem við eigum nú við að búa.

Ég hafði nú hugsað mér að koma fram með frv. svipað þessu, og hafði ég undirbúið það á þann hátt, að ég bað Fiskifélagið seint á síðasta sumri að safna skýrslum um dragnótaveiði, hvar sem var á öllu landinu, svo að hægt væri að hafa það til afnota fyrir þetta þing. Fyrir tveimur dögum fékk ég þessar skýrslur, og þær sýna ótvírætt, að með því að hafa dragnótaveiðina eins og nú, er mjög dýrmætum atvinnumöguleikum lokað fyrir landsmönnum, — atvinnumöguleikum, sem óforsvaranlegt væri af þingheimi að halda lokuðum áfram. Við 2. umr. mun ég gera mjög rækilega grein fyrir niðurstöðu þessara skýrslna. Ef ekki hefði verið opnað fyrir bátum við suðurströndina og bátum við Faxaflóa lengri tíma ársins en gert hefir verið, þá væri enn ekki fengin reynsla fyrir því, hvernig dragnótaveiðin borgaði sig fyrir landsmenn, en sem betur fer hefir verið opnað á þessum svæðum, sem ég gat um, og sú reynsla, sem fengizt hefir af þeim veiðum, sýnir alveg ótvírætt, að þarna er um mjög stóra atvinnumöguleika að ræða.

Eins og nú standa sakir, ber þorskútgerðin sig hvergi á landinu, og þyrfti í rauninni að fá stóran styrk úr ríkissjóði árlega til þess að geta haldið áfram, en þær skýrslur, sem Fiskifélagið hefir safnað, sýna ótvírætt, að dragnótaveiðin ber sig ágætlega, svo að fyrir utan síldveiðaútgerðina, er dragnótaveiðin sú eina útgerð, sem ber sig ennþá í landinu, og þess vegna er hart, að það skuli vera fulltrúi frá sjávarútvegskjördæmi, sem kemur hér fram á þingi og hælir sér af því að hafa lokað þessum stóra atvinnumöguleika fyrir landsmönnum. Í rauninni þarf engan að undra, þótt þessu sé svo farið með þennan hv. fulltrúa, því að af öllu steinrunnu íhaldi hér á landi er hann steinrunnastur, svo að ég er viss um, að ef ekki hefði verið farin að tíðkast lóðaveiði í hans ungdæmi, þá mundi hann nú berjast gegn þeim veiðum eins og hann berst gegn dragnótaveiðinni; hann mundi vafalaust vilja láta veiða þorskinn eingöngu á handfæri, ef ekki hefði verið búið að taka upp lóðaveiði, áður en hann kom á þing.

Viðvíkjandi þessu frv. verð ég að segja, að ég tel kannske nokkuð langt gengið í því að leyfa dragnótaveiði strax 20. apríl, því að það gengur sennilega nokkuð fram á hrygningartíma kolans, a. m. k. við vestur- og norðurströndina, og það er vafalaust að opna landhelgina mikið fyrr en gert er á þeim svæðum, sem nú eru opin, sem sé 1. júní. Eins geri ég ráð fyrir, að í frv. þurfi nauðsynlega að vera ákvæði um möskvastærð, eða a. m. k. ákvæði um heimild til þess að setja möskvastærð með reglugerð, og ennfremur álít ég, að í þessu frv. ætti að vera ákvæði til þess að setja með reglugerð minnstu þyngd þess kola, sem selja mætti, þannig, að full trygging fengist fyrir því, að þeir, sem stunda dragnótaveiðar, gæfu sig ekki við því að drepa ungviðið, sem nauðsynlegt er að hlífa, en ef þetta yrði gert, þá hefði kolinn þau hlunnindi fram yfir annan fisk, sem veiddur er hér við land, að hann yrði alveg friðaður um hrygningartímann, og ennfremur mundi sú lágmarksþyngd, sem væntanlega yrði ákveðin í reglugerð, leiða til þess, að það yrði ekki frjálst fyrir menn að drepa kolann ungan, m. ö. o. yrði búið betur að vexti og viðgangi kolans heldur en annara nytjafiska hér við land, að laxinum einum undanskildum.

Nú er það vitanlegt, að fiskimiðin versna vegna þess hve mikið er veitt af fiskinum, en þó að tekin yrði t. d. upp sú regla, að Íslendingar hættu að veiða fisk í botnvörpu hér við land, er þá líklegt, að það yrði til þess að auka fiskstofninn? Tvímælalaust ekki; það yrði til þess eins, að Íslendingar lokuðu atvinnumöguleikum fyrir sjálfum sér, til þess að aðrar þjóðir, sem veiðar stunda hér við land, gætu notað þá betur. Sama máli gegnir um kolann. Sú lokun, sem átt hefir sér stað, að því er snertir dragnótaveiðina, hefir orðið til þess eins, að útlendingar gætu betur notað þessa atvinnumöguleika hér við land og einmitt það, að kolinn hefir verið friðaður í landhelgi, hefir gert landhelgisveiðina enn eftirsóttari en áður.

Skal ég svo ekki hafa þessi orð fleiri, en við næstu umr. mun ég leggja fram þær skýrslur, sem Fiskifélagið safnaði eftir minni beiðni, en þær sýna, að hér er um að ræða svo mikla atvinnumöguleika, að það væri algerlega óverjandi fyrir þingið að halda áfram þessari lokunarstefnu.