24.02.1937
Neðri deild: 8. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (822)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Vegna ummæla, sem féllu á síðasta fundi hér í hv. d. í sambandi við umr. um frv. um breyt. á l. um bann gegn dragnótaveiði í landhelgi, og vegna frétta, sem eru í blöðunum í dag eftir útvarpsfrétt í gærkvöldi um það, að friðun Faxaflóa verði tekin fyrir á Lundúnafundi 17. marz næstk., vildi ég, með leyfi hæstv. forseta, gera grein fyrir því, hvernig þetta mál stendur.

Eins og drepið mun hafa verið á í umr. hér á síðasta deildarfundi, var haldinn fundur í London 23. nóv. síðastl. haust, til þess að ræða um lágmarksstærð möskva í botnvörpum og nokkrum fleiri veiðarfærum, svo og um lágmarksstærð nytjafiska, sem veiða mætti til sölu.

Upphaflega var svo til ætlazt, að þessi fundur fjallaði eingöngu um veiðar í Norðursjónum og á þar næst liggjandi svæðum. En á fyrsta eða öðrum degi fundarins var samþ. með yfirgnæfandi meiri hl. fundarins, að ákvæðin um þetta efni næðu norður á 64. breiddargráðu. Og þá var á fundinum samþ. um leið að bjóða Íslendingum þátttöku í þessum fundi. Þessi boð fengum við á þriðja degi fundarins. Við tilkynntum sendiherra okkar í Kaupmannahöfn, að við óskuðum, að hann færi á fundinn, þótt sýnt væri, að ekki fengizt talað á fundinum um friðun Faxaflóa. En vegna þess, hvernig á ferðum stóð, var ekki unnt fyrir sendiherrann að koma á fundinn fyrr en seinni partinn á föstudag, en fundinum átti að ljúka á laugardag, eða daginn eftir. Sýndist því þýðingarlítið, að hann færi á þennan fund.

Ég vil geta þess, að ástæðan til, að okkur var ekki boðið á þennan fund, var sú, að upphaflega var ætlazt til þess af brezku stjórninni, sem boðaði til fundarins, að á honum yrði einungis fjallað um fiskveiðar í Norðursjónum og í grennd við hann. En eins og tekið hefir verið fram, var það fyrst á fundinum sjálfum, sem það var samþ. að láta ákvæði þau, sem fundurinn svo samþ., ná norður á 64. gráðu norðurbreiddar.

Þó að svona færi um þátttöku Íslendinga í Lundúnafundinum í haust, gerðum við samt ráðstafanir til þess, að ef slíkur fundur sem þessi yrði haldinn síðar, þá yrði okkur tilkynnt um það svo snemma, að við gætum sent mann á þann fund, og það verður gert framvegis.

Nú sé ég í blöðunum í dag, eftir útvarpsfrétt, að sagt er, að friðun Faxaflóa verði tekin fyrir á fundinum, sem halda á í London 17. marz. En þetta hlýtur að vera á misskilningi byggt, því að fyrir liggur alger synjun á því, að það mál fáist tekið fyrir á fundinum, sem halda á þar 17. marz. Sá fundur á aðeins að fjalla um tillögur og uppástungur, sem gengið var frá á fundinum 23. nóvember í haust og getið hefir verið, um möskvastærð og lágmarksstærð nytjafiska, sem veiða mætti til sölu. Hinsvegar telur stjórnin leið til þess að taka málið upp á fundi alþjóðahafrannsóknarnefndar, sem haldinn verður nú innan skamms.

En jafnframt telur ríkisstj., að sjálfsagt sé að nota tækifærið á fundinum 17. marz til þess að ræða við þá menn, sem á þeim fundi mæta, um friðun Faxaflóa og þýðingu þeirrar friðunar fyrir fiskistofninn hér við land, enda þótt ekki fáist að taka þetta mál fyrir sem sérstakt fundarmál.

Herra fiskifræðingur Árni Friðriksson, Bjarni Sæmundsson og Kristján Bergsson hafa samið ýtarlega greinargerð um þetta mál, til þess að senda til sendiherra okkar í Kaupmannahöfn, sem mæta á á fundinum í London 17. marz í vetur. Fyrir hann verður lagt að leita eftir að ná viðræðum við þá fundarmenn, sem þar mæta, um friðun Faxaflóa á þeim grundvelli, sem lagður er í greinargerðinni.

Ég mun afhenda greinargerð þessa hv. sjútvn. þessarar d. til athugunar.