05.04.1937
Neðri deild: 31. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í B-deild Alþingistíðinda. (824)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Pétur Ottesen:

Mér virðist, að hæstv. forseti hafi nokkuð hlaupið fram fyrir skjöldu — ef svo má að orði kveða — með því að taka þetta mál, sem er 19. og síðasta dagskrármálið, nú þegar fyrir, en ekki er komið lengra áleiðis með dagskrána en að 6. málinu. Og hvað snertir hv. flm. og frsm. þessa máls, hv. þm. Vestm., þá er hann ekki svo við því búinn, að þetta mál sé tekið fyrir, að það þarf að fella niður störf í d., meðan hann er að leita að þeim skjölum, sem hann byggir mál sitt á, í öllum herbergjum og máske utan dyra þessa húss. Og þeir 2 hv. þm., sem hafa skrifað undir nál. með fyrirvara, eru ekki við því búnir að gera grein fyrir honum, að því er virðist, því að hvorugur þeirra er hér viðstaddur. Nú er það svo fyrir mér, sem ætla að segja nokkur orð um þetta mál, að ég vildi gjarnan heyra afstöðu þessara hv. þm., áður en ég tek til máls, og vildi ég þess vegna mælast til þess við hæstv. forseta, þar sem nm. eru svo vanbúnir við því, að málið sé tekið fyrir, að hann fresti nú frekari afgreiðslu þess heldur en orðið er. Vona ég, að hæstv. forseti taki þetta til greina og sjái, að þessi ósk er ekki að ófyrirsynju fram borin.