05.04.1937
Neðri deild: 31. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (826)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Bergur Jónsson:

Ég ætla aðeins með fáum orðum að gera grein fyrir fyrirvara mínum. Ég er sammála meðnm. mínum um það, að nauðsyn beri til að lengja þann tíma, sem veiða megi með dragnót. N. hefir haft fyrir sér ýms plögg, sem bera með sér, að þessi veiðiskapur hafi lánazt vel hér við land, og á slíkum erfiðleikatímum sem nú er nauðsynlegt, að sem flestar verstöðvar geti notið þessarar veiði. En fyrirvari minn liggur eiginlega bara í nokkrum smáatriðum. Ég óska þess heldur, að í 1. brtt., þar sem talað er um svæðið frá Eystra-Horni að Straumnesi, kæmi 15. júní í staðinn fyrir 15. maí. Ég hygg, að of langt sé gengið með því að leyfa dragnótaveiðar svo snemma, a. m. k. hvað Vestfirði snertir, og þess vegna geri ég ráð fyrir að koma fram með brtt. viðvíkjandi þessu. Að öðru leyti tel ég alveg sjálfsagt að ganga inn á þessa rýmkun á dragnótaveiðinni vegna þess erfiða ástands, sem sjávarútvegurinn á við að stríða, ekki sízt smáútvegurinn víðsvegar um landið.

Með þessu hefi ég gert grein fyrir fyrirvara mínum, og er því engin ástæða fyrir hv. þm. Borgf. að amast við því, að málið sé tekið fyrir, enda er nú hv. 6. þm. Reykv. hér kominn og mun því sennilega geta gert grein fyrir sínum fyrirvara.