05.04.1937
Neðri deild: 31. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (827)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Sigurður Kristjánsson:

Ég taldi ekki rétt að kljúfa n. út af þessu máli, enda þótt ég hafi ekki getað verið henni samþykkur í mikilsverðum atriðum. Að ég ekki vildi koma fram með sérstakt nál., stafar af því, að ég neita því alls ekki, að ástæður okkar eru svo bágbornar, að það er ekki nema eðlilegt, að þeir, sem sjóinn stunda, fari fastlega fram á að geta notið allra þeirra gæða, sem þeir hyggja, að fyrir hendi séu. En þetta mál er, eins og hv. þm. er kunnugt, afarmikið ágreiningsmál, og það svo mikið, að þeir, sem á móti dragnótaveiðum í landhelgi eru, telja, að þær séu til stórtjóns fyrir smáútveginn og muni gereyða sumum grunnmiðum landsins. Þeir, sem aftur á móti haft komizt að raun um, að þessi veiði geti gefið mjög góðan arð, eru að vonum mjög ákafir í að geta notið hennar. Nú er með öllu ómögulegt að gera báðum þessum aðiljum til hæfis, og verður þá fyrst og fremst að reyna að brjóta málið til mergjar og sjá, hverjir hafa rétt fyrir sér, og ef hvorirtveggja hafa eitthvað til síns máls, þá er að reyna að finna einhverja millileið, sem gæti sætt báða. Ég er ekki í neinum vafa um það, að ef veiðiskapur með dragnót yrði heimilaður almennt, þá mundi hann verða rekinn fyrst í stað í svo stórum stíl, að það mundi í fyrsta lagi verða afarmikil botnröskun á þeim miðum, sem bátaflotinn sækti, og í öðru lagi mundi arðurinn af þessari veiði ekki verða svo mikill sem margir álíta, því að það er alls ekki rétt ályktað, að miða eingöngu við þann árangur, sem tiltölulega fáir bátar hafa fengið. — Ég vil fúslega viðurkenna það, að hik mitt í þessu máli stafar aðallega af tvennu; í fyrsta lagi því, hve mjög skoðanir manna eru skiptar um það, hvort rétt sé að leyfa þessar veiðar með svona litlum takmörkunum, og í öðru lagi því, að mig skortir náttúrlega alla þekkingu á þessum hlutum, og verð þess vegna að reyna að gera mér grein fyrir málinu eftir umsögnum og reynslu annara. En það þykist ég vera alveg viss um, að ef svo mikil rýmkun verður gerð á þessum veiðum sem hér er gert ráð fyrir, þá verði kolinn alveg uppurinn eftir fá ár, því að gera má ráð fyrir, að geysilegur fjöldi báta muni verða gerðir út til kolaveiða, þegar tíminn er orðinn svona langur, sem dragnótaveiðar eru heimilaðar. — Ég hefi líka verið ákaflega hikandi í því að ganga inn á þá braut, að heimila mætti sumum bátum þessar veiðar, en öðrum ekki. Það er náttúrlega ekki hægt að neita því, að réttur manna til veiða, bæði þessara og annara, með sama veiðarfærinu, á að vera jafn. En hinsvegar eru þau rök n. alveg rétt, að stærri bátar geta vel stundað síldveiðar og þoli því frekar, að þeim sé bönnuð þessi veiði, heldur en hinir minni bátarnir, sem annars eiga einskis úrkostar. Eigi að síður er það ákaflega leiðinlegt að koma til manna, sem eru borgarar í sama þjóðfélaginu, og segja við þá, að þessi megi nota kolamið landsins, en hinir ekki, jafnvel þó að báðir ætli sér að viðhafa nákvæmlega sömu veiðiaðferðina.

Af þessum ástæðum, sem ég nú hefi tekið fram, hefi ég ekki séð mér fært að heita þessu máli fylgi mínu, þrátt fyrir það, að ég viðurkenni fullkomlega þörf manna til þess að nota sér hvaða veiðar sem hugsanlegt væri, að gæfu góðan árangur í bili. — Ég skal ekkert um það segja, hvort ég greiði atkv. í þessu máli, en ég hefi sem sagt ekki heitið því fylgi mínu.