05.04.1937
Neðri deild: 31. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Pétur Ottesen:

Ég sé það á nál. hv. sjútvn., að hún þykist standa allföstum fótum að því er snertir sínar till. í þessu máli, meðal annars af því, að Fiskifélag Íslands hefir safnað skýrslum um veiðar á síðastl. ári og auk þess leitað álits manna um dragnótina, kosti hennar og galla. Þessu áliti, sem kemur fram í gegnum þessa skýrslusöfnun Fiskifélagsins, byggir svo n. á sem staðreyndum, að álit fiskimannanna við strendur þessa lands sé það á dragnótunum, að þær geri yfir höfuð ekki usla svo teljandi sé né skaði aðrar fiskveiðar. Nú vil ég spyrja hv. frsm. sjútvn. að því, að hvers tilhlutun Fiskifélag Íslands hefir safnað þessum skýrslum og að hvers tilhlutun leitað er álits fiskimanna með þeim hætti, sem hér hefir verið gert. Ég meina með þeim hætti, að það er eingöngu leitað til þeirra, sem stundað hafa dragnótaveiðar og spurt um álit þeirra á dragnótinni, en gengið framhjá öllum öðrum fiskimönnum í þessu máli, þótt þeir hafi vitanlega mikla reynslu í þessu efni og hafi stundað dragnótaveiðar í sambandi við aðrar veiðar. Hvernig stendur á því, að Fiskifélag Íslands gerir þetta, ef ætlazt er til, að af því verði dregin ályktun um almenna skoðun fiskimanna í landinu á dragnótaveiðum? Er þetta blekkingartilraun hjá þessari opinberu stofnun, sem Fiskifélag Íslands er og byggt er upp með fjárframlögum úr hinum opinbera sjóði landsmanna, ríkissjóðnum? Eða misnotar sjútvn. þessar upplýsingar til þess að reyna að blekkja menn með því, að út úr þessum till. megi draga ályktun um almenna skoðun fiskimanna á landinu á dragnótaveiðum? Hvort er heldur? Eða er þetta hvorttveggja gert í blekkingarskyni?

Ef svo er, að opinber stofnun eins og Fiskifélag Íslands hefir gert þetta, og ætlazt er til að fá með þessu grundvöll undir almenna skoðun á dragnótinni, þá er ekki hægt að líta á þetta öðruvísi en það sé af hálfu Fiskifélagsins gert í blekkingarskyni. Það er bezt að krefja þá góðu menn, sem staðið hafa fyrir þessu, sagna um það, hvort þeir hafi aflað till. í því skyni, að dregnar verði af þeim ályktanir, sem ekkert annað fela í sér en blekkingar. Hitt er kannske ekki eins undravert, þótt sjútvn., sem á undanförnum árum hefir leitað flestra klækja til þess að fá stoð undir þetta mál sitt, gerist djarftæk til heimilda í þessu efni. Það er ekki neitt nýtt. Hún hefir farið á þær fjörur fyrr. Málið fer fyrst að verða alvarlegt, ef opinber stofnun, sem studd er af ríkinu og byggð upp af fiskimönnum þessa lands, fer að nota sína aðstöðu til slíkra hluta.

Það er bezt að skiljast ekki svo við þetta mál, að þeir góðu menn, sem að þessari stofnun standa, standi ekki reikningsskap af gerðum sínum og þvoi hendur sínar af þessu og færi það yfir á sjútvn. eða þann hluta hennar, sem kann að standa að þessu.

Annað atriði í þessu máli er að athuga það, hvernig n. að öðru leyti notar þessar skýrslur. Þessar skýrslur hafa verið undir hespu og lás hjá sjávarútvegsnefnd frá því þær komu inn fyrir þetta þinghús, svo að mönnum utan nefndarinnar hefir ekki gefizt kostur á að kynna sér þessar skýrslur. Ég hefi því aðeins getað rennt augunum yfir þessar skýrslur. Það er vitanlega ekki hægt á svo stuttum tíma að kanna skýrslurnar þannig, að maður geti áttað sig á þeim til fulls. Ég hefi þó séð á þeim örskamma tíma, sem ég hefi athugað skýrslurnar, að n. hefir verið nokkuð djarftæk í því að draga af þeim ályktanir. Ég sé af þessum skýrslum, að það er alls ekki skýlaus skoðun þessara manna, sem skýrslurnar hafa gefið, að þessar veiðar geri engan usla og af þeim stafi engin hætta fyrir ungviðið, sem mjög verður fyrir dragnótinni. Ég ætla í þessu sambandi að benda á 2 eða 3 dæmi, sem ég hefi rekið augun í á þessum fáu mínútum, sem ég hefi haft til þess að fara yfir skýrslurnar. Ég sé hér í bunka, sem kallaður er „skýrslur um dragnótaveiðar við Faxaflóa og Stokkseyri“, í bréfi, sem fylgir skýrslunum, þar sem talað er um kost og löst á þessu veiðarfæri, en um það var spurt af Fiskifélaginu, að þar stendur: „Um kost og löst þessa veiðarfæris er það að taka fram, að ég er ekki í nokkrum vafa um, að það eyðileggur botngróður og ungviði“. — Það er gott að bera þetta saman við þá ályktun, sem n. hefir dregið út úr þessum skýrslum í nál., að þetta veiðarfæri sé alveg skaðlaust að því er fiskinn snertir og þar á meðal ungviðið. Það stendur ennfremur í þessum skýrslum frá Faxaflóa, þar sem talað er um þetta í töluvert löngu máli: „Hitt er rétt, að hún (þ. e. dragnótin) verði ekki notuð samtímis öðrum veiðarfærum á sama stað“. — M. ö. o. þá byggir dragnótin út öðrum veiðarfærum á þeim miðum, sem hún er notuð á, og það má líka draga út af þessum ummælum, að það sé tilgangslaust að vera þar með aðrar veiðar, því að það sé ekki hægt að afla neins fiskjar með þeim hætti. Það er gott að bera þetta saman við sífelldar fullyrðingar hv. þm. Vestm. og annara, sem eru á sama máli um, að þetta spilli ekki veiðum á önnur veiðarfæri.

Ég veit, að sá maður, sem hefir gefið þessa skýrslu, er þrautreyndur við dragnótaveiðar við Faxaflóa. Ég álít þess vegna, að það megi töluvert leggja upp úr þessum ummælum hans.

Mér hefir ekki gefizt tími til að athuga meira í þessum bunka, því að ég vildi nota þessar fáu mínútur, sem ég hafði, til þess að fara yfir alla bunkana, svo að maður fengi dálítið yfirlit kringum landið, hvernig fiskimenn líta á þetta, og bera það svo saman við ályktun þá, sem n. hefir dregið út úr skýrslunum í nál., sem ég las upp áðan.

Ég kem þá að Norðurlandi. Þar hefi ég ekki getað komizt yfir að lesa neitt af því, sem er þar neðanmáls á þeim prentuðu skjölum, sem Fiskifélagið sendi út. En ég hefi séð á þeim sérstöku bréfum, sem fylgja frá dragnótaveiðimönnum, að það, sem þar er sagt, kemur ekki vel heim við það, sem í nál. stendur. Í bréfi frá tveimur mönnum í Hrísey segir m. a.: „Það er réttmætt og sjálfsagt, að landhelgin sé lokuð yfir hrygningartímann og fram á haust, eins og nú er, en síðan opin 2 til 3 mánuði minnst.“ — Þeir menn, sem skrifa þetta bréf, eru með öðrum orðum í andstöðu við flm. þessa frv. og sjútvn. Þó leyfir n. sér að ganga alveg framhjá þessu og taka þetta bréf sem meðmæli með því að opna landhelgina alveg upp á gátt. Þetta er nú aðferð n. og heiðarleiki hennar og varfærni í því að nota þessar heimildir svo sem hún gerir í sínu nál.

Þá er það dragnótaveiðin á Vestfjörðum. Þar er ekki um auðugan garð að gresja í þessum upplýsingum. Þar er einn einasti maður, sem orðið hefir til þess að skrifa á þessi prentuðu eyðublöð frá Fiskifélaginu. Hann segir hér í svari sínu út af síðustu spurningunni, um kost og löst þessa veiðarfæris: „En gæta verður þess að hanna veiðina hæfilega langan tíma á hverju ári til þess að koma í veg fyrir, að hún eyðileggist alveg.“ — Þegar maður ber þetta saman við það frv., sem hér liggur fyrir, þar sem á að leyfa þessar veiðar allan þann tíma, sem nokkur koli er á grunnmiðum — því að bannið tekur nálega yfir þann tíma, sem kolinn fer út af grunninum til þess að hrygna, og þá er sama, hvort veiðarnar eru bannaðar eða ekki, því að þá veiðist ekkert — þá er það augljóst mál, að n. getur ekki sótt mikinn stuðning í þetta álit frá Vestfjörðum.

Ég var ekki kominn lengra en þetta, þegar að mér kom að tala í málinu, svo að ég hefi ekki haft tíma til að athuga bunkann frá Austfjörðum og ekki nema að litlu ummæli, sem fyrir liggja í sérstökum bréfum, og eru þau í mótsetningu við það, sem n. hefir dregið út úr þessu, og það ástand, sem hún berst fyrir í þessu máli. Ég ætla, að það verði bezt séð af þessu, að það er með mjög ótilhlýðilegum hætti gengið að því að afla þessara upplýsinga af hálfu Fiskifélags Íslands og svo af hálfu n. að nota þær sem almenna ályktun fiskimannanna í landinu. Þarna er um blekkinga- og fölsunartilraun að ræða, og það er skákað í því skjólinu, að menn hafi ekki getað kynnt sér málið.

Í raun og veru er það svo, eftir að n. hefir dregið þessa ályktun út úr skýrslunum, sem þarna eru, um álit fiskimannanna, eins og það er nú til komið, að hún hefir komið hreint og beint upp um sig. Það er ekki þörf fyrir mig né aðra að gera það, því að hún hefir sjálf gert það. Ef þessi veiðiaðferð væri alveg óskaðleg fyrir fiskveiðarnar, eins og n. vill álíta, — hvaða ástæða er þá til að gera sérstakar ráðstafanir til þess að vernda ungviðið, eins og gert er í brtt. n. og eins og segir í nál.? Það væri vitanlega, ef n. tryði því, sem segir í nál., og þyrði að standa á þeim grundvelli, sem lagður er með frv., ástæðulaust að gera slíkar ráðstafanir. En n. gerir það samt sem áður og leggur þetta til í sínum till., og vil ég með leyfi hæstv. forseta lesa upp það, sem stendur í nál. um þetta:

„Þá telur n., að setja verði skorður við því svo sem hægt er, að ungviði sé drepið og þannig gengið á fiskstofninn, og leggur því til, að ráðh. setji með reglugerð ákvæði um möskvastærð á dragnótum í þessu skyni og ennfremur ákvæði um lágmarksþyngd þess fiskjar, sem veiddur er í dragnót og hafður til sölu.“

Það er náttúrlega ákaflega gott að trúa á löggjafann og allt þess háttar, því að á því byggist okkar þjóðskipulag, að löggjöf sé sett og henni framfylgt. Ég ber auðvitað fyllstu virðingu fyrir skynsamlegum l., en mér virðist það stappa nærri oftrú á löggjafanum, þegar gert er ráð fyrir að setja l. um stærð þess fiskjar, sem veiða megi í dragnót og hafa til sölu. Ég veit ekki, hvernig á að framkvæma þessa löggjöf niðri á sjávarbotni. Ég veit ekki, hvernig framkvæmdarvaldið ætlar að seilast niður á miðin, þar sem dragnótin er á ferð, og sjá um, að ekki slæðist í dragnótina nema fiskur af vissri stærð. Það kemur út á eitt, þótt þessar ráðstafanir séu gerðar, því að ef þessi fiskur kemur í vörpuna, þá drepst hann, hvort hann er söluhæfur eða ekki, hefir enga þýðingu í þessu efni. Aðalhættan er sú, eins og n. viðurkennir þarna, að ungviðið er dregið upp í vörpuna og drepst þar. Þegar svo er komið, þá er þessi stuðningur lítils virði. Þegar litið er á þetta frá framkvæmdanna sjónarmiði, þá er þetta broslegt, ég vil ekki segja hlægilegt, að setja ákvæði eins og þetta. En þetta er þó vottur þess, að n. álítur, að þarna sé hætta á ferðum. Ég held það sé núna í fyrsta skipti, sem hún gerir það, svo að það er þó búið að koma þessu inn í þau höfuð, sem þar fjalla um málið. Hún sýnir þó þarna lit á skynsemd, þótt till. sé óraunhæf og geti ekki orðið að gagni. En n. kemur þarna upp um sjálfa sig. Hún hefir dregið ályktun um almennt álit fiskimannanna út af skýrslunum, en þetta er nú ekki eins og hún hefir haldið fram, auk þess sem ekkert er á þessu byggjandi.

Það kom líka hér fram, — ég man ekki hjá hverjum, því að það er svo erfitt að greina á milli, þegar margir tala um sama efni og éta hver upp eftir öðrum — að það gerði ekkert til, þótt gengið væri á stofninn, því að margir nytu góðs af, á meðan væri verið að éta upp stofninn. En hvað tekur svo við, þegar búið er að éta upp stofninn? Það þarf líka að renna augunum til þess, þótt þessum höfðum í n. hafi alveg yfirsézt það. Annars er um brtt. n. það að segja, að þar er þrengdur veiðitíminn frá því, sem hann er í frv., en það kemur að litlu gagni af þeirri ástæðu, að þann tíma er svo lítið af þeim fiski inni á miðunum. Af þessu leiðir, að þetta dregur ekki svo neinu nemi úr þeirri hættu, sem af dragnótaveiðum stafar.

Ég sé af ákvæðum frv., að þá á ekki að gera hinum brotlegu mönnum erfitt fyrir, þar sem þeim er gefinn kostur á að kaupa hin uppteknu veiðarfæri, þegar búið er að gera út um brot þeirra, svo að þeir verði ekki fyrir töfum af þeim sökum. Þetta er náttúrlega baganlegt fyrir alla, og þá líka Dani og Færeyinga, sem hrúgast hingað til veiða. Það er náttúrlega nærgætnislegt gagnvart þessum kunningjum okkar, að nema úr l. ákvæðið um, að þeir gætu ekki fengið keypt strax þau hin sömu veiðarfæri, sem tekin hafa verið af þeim fyrir brot á löggjöfinni. Það var einhver, sem talaði um það við 1. umr. þessa máls, hvort ekki væri verið að ýta undir það, að menn brytu ákvæði l., með því að gera þessar ráðstafanir, en n. sýnist annað. Að vísu skrifa tveir undir nál. með fyrirvara, svo að þeir hafa eitthvað við þetta að athuga. En það er miklu hreinlegra og betra, ef um ágreining er að ræða, að menn sýni hann með ákveðnum till., en séu ekki með þessa fyrirvara, sem reynast haldlitlir, þegar til á að taka. Það má segja, að slík aðstaða sé frekar í orði heldur en á borði. Það er náttúrlega alveg víst, ef veiða má allt sumarið, eins og hér er lagt til, eða frá 15. maí til 1. des., að Danir og Færeyingar, sem njóta sama réttar til atvinnurekstrar hér á landi og Íslendingar samkv. sambandslagasamningunum, láta ekki á sér standa til veiðanna. Og þó að það eigi að gera að einhverju leyti torveldara með því að segja, að ekki megi stærri bátar en 35 tonn stunda veiðarnar, þá ætla ég, að Danir og Færeyingar hafi einhver ráð með að fara í kringum þau ákvæði. Þeir gætu t. d. veitt á smábátum, en sent svo stærri skip til að sækja aflann og flytja hann til útlanda. Það er ákaflega hugulsamt af þeim, sem að þessu frv. standa, að vilja hleypa Dönum og öðrum útlendingum inn í landhelgi okkar á bezta tíma ársins og leyfa þeim að sópa þar upp því verðmæti, sem við höfum sjálfir rétt á, en láta svo íslenzkum fiskimönnum eftir að brjótast út á hafið í misjöfnum veðrum til þess að afla sér lífsframfæris. Það er ekki einasta nytjafiskurinn, sem verið er að tortíma með þessu frv., heldur er ungviðinu með þessu líka eytt, því að það hefir reynslan sannað, að hann heldur sig á vissu tímabili inni við strendurnar og í vogum í skjóli. Þetta mál er þá allt svoleiðis í pottinn búið, að það er ekki minnsti vafi á því, að með þessu er með mjög stórvirkum hætti gerð tilraun til þess að setja hömlur við því að tryggja áframhaldandi nytjafiskveiðar við strendur þessa lands. Á því er ekki hinn minnsti vafi, og það mun verða svo, að við sjáum ekki út yfir þá örðugleika í framtíðinni, sem af þessu getur leitt. Það má í þessu sambandi minna á annað atriði, sem allir virðast vera sammála um hér á landi, og ég vil undirstrika, að sú almenna skoðun er á fullum rökum reist, að það sé full ástæða, eins og nú horfir um fiskveiðar okkar, til að vernda þær frekar en orðið er, og þá einkum og sér í lagi að friða einstök svæði fyrir botnvörpu- og dragnótaveiðum.

Hér hafa af hálfu Alþ. verið gerðar tilraunir ár eftir ár til þess að reyna að opna augu Norðurlandaþjóðanna, þeirra, sem fiskveiðar stunda hér við land, fyrir þeirri staðreynd, að með sama áframhaldi með botnvörpuveiðar þá mundi það leiða til algerðrar þurrðar nytjafisks við strendur þessa lands. Þessari staðreynd hafa þessar þjóðir algerlega lokað augunum fyrir og ekki fengizt til þess að taka fyrir á fundum sínum erindi um þetta, sem borizt hafa frá Alþ., um að athuga þá hættu, sem hér er á ferðinni. En nú í haust fengust þessar þjóðir loks til að taka þetta mál til meðferðar og var gerð ályktun á fundi um þessi mál, að þau skyldu athuguð og síðan tekin fyrir á næsta alþjóðafundi um þessi efni. Með öðrum orðum, að sú barátta, sem við höfum háð árum saman, til að opna augu nágrannaþjóða okkar fyrir þeim háska, sem hér er á ferðinni, virðist ætla að fara að bera árangur. Staðreyndirnar hafa talað, og það hefir orðið til þess, að þjóðirnar hafa um leið farið að hlusta á það, hvað vísindin segja um þessa hluti. Þær hafa skotið málum sínum til vísindamanna, það er að segja þeirra, sem hafa á vísindalegan hátt rannsakað fiskmergðina, ekki einasta nytjafiskanna, heldur og ungviðisins, innan landhelginnar sem utan. Það er vert að athuga það, að á sama tíma sem við í krafti reynslu og vísinda höfum unnið þetta á gagnvart Norðurlandaþjóðunum, þá erum við að slá þetta vopn úr hendi okkar með því að vera að auka þessa rányrkju, sem hefir orðið þess valdandi, að leiða þessa auðsæilegu hættu yfir þá menn, sem byggja framtíð sína á fiskveiðum. Það er ómögulegt að búast við öðru en að þessar þjóðir vantreysti alvöru okkar í þessum málum, ef við förum þannig að ráði okkar. Þetta er þess vegna fullkomlega athugavert, og þó að við sjáum fram á einhverja stundarhagsmuni, þá megum við ekki láta það blekkja okkur í þessu efni. Ég viðurkenni fullkomlega þá nauðsyn, sem er á því að nota alla möguleika til þess að afla brauðs, en hinsvegar verður að líta á það, að okkar framtíð byggist alltaf á fiskveiðum, og við megum ekki sleppa augunum af þeirri staðreynd. — Ég þarf svo ekki að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég hefi gert mína skyldu, að benda þá hættu, sem við hér erum í.