07.04.1937
Neðri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í B-deild Alþingistíðinda. (835)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Páll Þorbjörnsson:

Hv. þm. Vestm. hefir svarað í sinni ræðu hv. þm. Borgf. flestu því, sem mér fannst, að gæfi tilefni til andsvara.

Hv. þm. Borgf. hélt því fast fram, að það hefði verið farið mjög óhöndulega á allan hátt bæði með skýrslusöfnunina og eins með það að vinna úr efni hennar. Kallaði hann þetta hina herfilegustu misbeitingu og sérstaklega vítavert, að Fiskifélagið skyldi hafa snúið sér eingöngu til þeirra manna, sem dragnótaveiðar hefðu stundað, til þess að fá upplýsingar. Mátti skilja hv. þm. Borgf. svo, að pöntuð hefðu verið ákveðin ummæli um dragnótaveiðarnar frá þessum mönnum. Ég hygg, að hv. þm. hafi ekki ætlazt til þess, að menn álitu, að það væri sérstaklega óheppilegt að snúa sér til þeirra manna, sem stunda dragnótaveiðar, um upplýsingar, því að það stendur svo á, að það munu ekki vera neinir þeir menn, sem leitað var til, sem ekki stunda aðrar fiskveiðar jafnhliða. Og ég ætla, að þeir stundi aðrar veiðar lengri tíma árs en þessar. Var því ekki hægt að leita til manna, sem fremur höfðu alhliða þekkingu á gagnsemi og ógagni þessarar veiðiaðferðar en þeir, sem jafnframt öðrum veiðum höfðu stundað dragnótaveiðar.

Í þessu skýrsluformi, sem sent var út til sjómannanna, er spurt margra spurninga. Og það er gefið nægjanlegt rúm til að svara þeim. Það eru lagðar fram ákveðnar spurningar um ýmislegt, sem gæti gefið mönnum ástæðu til þess að segja frá ógagni, sem af veiðunum væri. Seinasta spurningin er t. d. svo hljóðandi: „Hvert er álit yðar á þessu veiðarfæri? Teljið kost og löst á því.“ Það er beinlínis lagt fyrir menn að geta bæði um kost og löst. Þá er einnig spurt ýtarlega um veiðarfærakostnað, afla, andvirði aflahlutar og annað, sem mætti verða til upplýsingar.

Ég vil segja hv. þm. Borgf., að þar sem ég þekki bezt til, í stærstu veiðistöð landsins, þar sem nær 80 vélbátar ganga til fiskveiða, munu vera um 20, sem hafa stundað dragnótaveiðar síðasta ár, og færri árin á undan. Nú er mér kunnugt, að það er langt því frá, að þessi skýrslueyðublöð hafi eingöngu borizt í hendur þeim fáu mönnum, sem stundað hafa þessar veiðar. Ég hefi orðið var við allmikið umtal um þessar skýrslur meðal sjómanna, af því að margir hafa fengið þær í hendur, bæði þeir, sem stundað hafa dragnótaveiðar, og ekki hafa gert það. En það vill svo einkennilega til, að í þessari verstöð kemur engin rödd fram til þess að andmæla notkun þessara veiðarfæra, hvorki frá þeim 20, sem stundað hafa dragnótaveiðar, eða frá hinum bátunum 60, sem ekki komu nálægt þeim. Það er alveg sérstakt, ef þessi mikli fjöldi fiskimanna, sem ennþá hafa ekki kynnzt þessum veiðarfærum, hefir látið undir höfuð leggjast að lýsa ókostunum, sem á þeim væru.

Hv. þm. Borgf. sagði í sinni ræðu, að dragnótaveiðarnar byggðu alveg út öðrum veiðarfærum. Þannig væri það gagnslaust að ætla að stunda veiðar með öðrum veiðarfærum á sömu slóðum. Nú skyldu menn ætla, að þetta væri eitthvert einsdæmi, að ekki væri heppilegt að stunda veiðar með fjarskyldum veiðarfærum á sömu slóðum. En ég skal benda hv. þm. Borgf. á það, að á vissum tíma vetrarvertíðarinnar eru feiknin öll af þorskanetum í sjó í Vestmannaeyjum. Og þeir, sem þessar veiðar stunda, telja sig varla fá meiri vágest en þegar veiðiskúturnar koma með handfæri sín. Nú hefir engum dottið í hug að banna handfæraveiðar, þó að þær spilli fyrir netaveiðunum. Þannig mætti lengi telja.

Hv. þm. Borgf. las upp 2 eða 3 skýrslur (PO: Þær voru fleiri.), sem hann þóttist hafa fundið og væru til andmæla þessum veiðum. Ég hefi haft tækifæri til þess að skoða þessar skýrslur, eftir að hann talaði. Og hv. þm. Vestm. hefir í sinni ræðu teygt í sundur þennan vef, sem hv. þm. Borgf. var að reyna að spinna úr þessum skýrslum. Ég hygg, að í 2 af þessum skýrslum séu miklu meiri meðmæli með dragnótaveiðunum heldur en hitt. Fyrsta skýrslan, sem hann las upp, mun vera frá Vestfjörðum. Hygg ég, að byrjað sé á því að telja þetta einhver beztu veiðarfæri, sem hægt er að fara með á sjó. Hinsvegar kemur það fram, að menn telja ástæðu til þess, og enda sjálfsagt, að banna þessar veiðar, meðan hrygningartíminn stendur yfir. Og það er einmitt það, sem sjútvn. hefir lagt til. Hún hefir ekki getað leitað upplýsinga hjá fróðari mönnum en fiskifræðingunum, og till. hennar um friðunartímann byggjast á því, sem þeir hafa sagt um hrygningartímann.

Þá var hv. þm. Borgf. að tala um Dani og sagði, að þó að takmörk væru sett fyrir stærð skipanna, sem dragnótaveiðar stunduðu, þá væri ekkert í vegi fyrir því, að þeir gætu komið hingað til lands með stærri skip til þess að flytja aflann út. En hvers vegna hafa þeir ekki gert þetta? Hvers vegna hafa þeir ekki komið á undanförnum árum, þegar fór að hausta, með stærri skip til þess að flytja aflann út?

Hv. þm. Borgf. minntist á Londonarfundinn, þar sem rætt var um friðun og nauðsynina á því að vernda stofninn o. fl. Ég verð að segja það, að mér finnst það einkennilegt, að hann skuli halda því fram, að það geti ekki verið nein önnur ástæða til þess, að auka þurfi eða vernda fiskistofninn, en að hann sé að ganga til þurrðar eða eyðileggjast af veiðarfærum, sérstaklega dragnót. Ég veit ekki betur en til séu félög upp um sveitir, sem eru kölluð fiskræktarfélög. Þar er þó ekki hægt að koma við dragnótaveiði. Og til hvers er þá verið að setja á stofn fiskræktarfélög og koma upp laxaklökum? Ekki er það þó af því, að dragnót hafi eyðilagt stofninn. Nei, það geta legið margar ástæður til þess, að höfð séu með höndum fiskiklök, aðrar en að stofninn sé að ganga til þurrðar, af því að sérstök veiðarfæri hafi verið notuð.

Hv. 2. þm. N.-M. hóf hér mál sitt á því að segja, að hann hefði lítið vit á sjávarútvegsmálum og öðru því, sem að sjónum lyti. Hann sagðist, skildist mér, fara eingöngu eftir vilja sjómanna í sínu kjördæmi í þessum efnum. Það væri búið að hringja til sín úr öllum sjávarhornunum og biðja sig að vera á móti frv. Það væri fróðlegt að spyrja þennan hv. þm., hvort hann þekki svo mikið til í sínu kjördæmi, að hann viti, hvort þeir, sem þar búa, hafi nokkurntíma séð dragnót öðruvísi en þá aftan í bát, og öfundist því yfir að sjá, hvernig aðrir bjarga sér? Reynslan hefir sýnt það bæði nú og áður, að einmitt úr þeim byggðarlögum, þar sem menn þekkja ekki dragnótina, hafa komið mótmæli gegn þessu veiðarfæri, en óðar en búið er að skapa þeim aðstöðu til þess að eignast þetta veiðarfæri og hagnýta sér aflann, þá fara þessir sömu menn að óska eftir því að mega fiska og fá upphafin þau bönd, sem þeir sjálfir hafa komið á.

Þá vilja margir ekki opna þessar veiðar nema fyrir heimamönnum. Og hvers vegna? Er þetta ekki bezta sönnunin fyrir því, að það er ekki annað en skilningsleysi og þröngsýni, sem gengur til þess, að menn eru á móti dragnótaveiðunum. Hvers vegna ættu þessar fiskveiðar að vera hættulegri, ef þær eru stundaðar af aðkomumönnum en heimamönnum? Eru líkur til þess, að þeir, sem byrjaðir eru á þessum veiðum, séu verr hæfir til þess að stunda þær en hinir?

Þá var þessi sami hv. þm. að tala um þann hringlandaskap, sem lýsti sér í því, ef þeir menn, sem áður hefðu greitt atkv. á móti þessu máli, færu nú að greiða atkv. með því. Ég verð að segja það, að mér finnst það koma úr hörðustu átt, ef þessi hv. þm. er að tala um hringlandahátt í málum; síðan ég kom á þingið, og mín þingseta er nokkuð jöfn hans, hefi ég orðið þess var, að hann hefir skipt um skoðun, og ég ætla, að það hafi ekki verið af öðru en því, að svo mikið af rökum hefir borizt í hendur hans, að hann hefir verið knúinn til þess að breyta skoðun sinni, og yfirleitt má segja, að svo mikið af rökum hafi komið í ljós í þessu máli undanfarin ár, og einkum þá nú með skýrslum Fiskifélagsins, að það er engin furða, þótt allmargir hafi skipt um skoðun.