08.04.1937
Neðri deild: 33. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (837)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Gísli Guðmundsson:

Ég kann ekki við það, að láta þetta mál fara svo gegnum umr., að ég segi ekki um það nokkur orð, enda þótt ég telji, að það hafi verið rætt rækilega af sumum öðrum hv. þm., einkanlega hv. þm. Borgf., út frá því sjónarmiði, sem ég tel heppilegast. Ég verð að segja, að mér finnst það vera mikil þrautseigja, sem þeir hv. þm., sem vilja opna landhelgina, sýna í þessu máli, því að þetta mun vera í 4. eða 5. skipti, sem af þeirra hálfu er flutt slíkt frv. á Alþ., og þau hafa öll verið felld, flest með miklum atkvæðamun. Það er sérstaklega eitt dæmi um það, sem ég vil benda á. Árið 1932 voru gefin út bráðabirgðalög af þáv. atvmrh. um það að opna landhelgina að þessu leyti, og þessi bráðabirgðalög voru í gildi þá um sumarið, en það reis svo mikil andúð gegn málinu hjá fiskimönnum, að þegar þing kom saman, þá voru þau felld; þingið sá sér ekki annað fært en að taka tillit til hinna sterku radda frá sjómönnum. Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er aðallega farið fram á 4 breyt. á núv. löggjöf. Í fyrsta lagi lenging veiðitímans, í öðru lagi afnám á hinum svokölluðu héraðsbönnum, í þriðja lagi er farið fram á, að sektir verði lækkaðar fyrir brot á l., og í fjórða lagi vilja þeir koma því inn í l., að það sé leyfilegt að selja þeim aftur veiðarfæri, sem hafa orðið brotlegir við l. og veiðarfærin gerð upptæk hjá. Ég verð að segja, að mér finnst þessar breyt. afaróviðkunnanlegar; það lítur ekki út fyrir, að þeir, sem að frv. standa, ætlist til, að þessi l. séu haldin eða vilji draga úr aðhaldinu um að halda þau. Það getur verið, að það megi til sanns vegar færa, að sektirnar í núgildandi l. séu of háar, vegna þess að það er hæpið, að þær fáist greiddar. Ég vil segja það, að frá mínu sjónarmiði miða þessar breyt. sem sagt alls ekki til bóta, og ég mun hiklaust greiða atkv. á móti frv. eins og það liggur fyrir, og eins þó að samþ. verði þær brtt., sem sjútvn. hefir borið fram. Sérstaklega er mér kunnugt um það, að gagnvart því ákvæði, að afnema héraðssamþykktirnar, er allmikil og hörð andstaða. Yfirleitt er mér ekki kunnugt um, að sú andstaða, sem hefir verið gagnvart því, að rýmka til í landhelginni fyrir dragnótaveiðar, hafi rénað á nokkurn hátt, a. m. k. ekki þá nema í þeim tilfellum, þar sem kann að vera, að einhverjir menn hafi sjálfir hagsmuna að gæta, að landhelgin sé opnuð að þessu leyti. Og ég vil segja, að ef á að fara að bera þeim mönnum á brýn, sem hafa verið á móti opnun landhelginnar, eins og hv. 3. landsk. gerði, og enda hv. þm. Vestm. líka, að þeim gengi það til, að þeir bæru ekki fullkomlega skyn á þetta mál, eins og hv. þm. Vestm. sagði, eða að þeir öfunduðust yfir annara bjargræði, eins og hv. 3. landsk. vildi halda fram, þá álít ég, að sé fullkomlega réttmætt að láta sér detta í hug, að þessi ákafi sumra manna fyrir því, að landhelgin verði opnuð, geti staðið í sambandi við einhverja eiginhagsmuni, en mér finnst, að aðrar eins ásakanir og þær, sem hv. 3. landsk. kom með, séu algerlega óforsvaranlegar, þar sem hann var með þær getsakir, að andstaða manna gegn frv. væri af því sprottin, að menn öfunduðust yfir því, að aðrir skyldu geta bjargað sér. Ég vil mótmæla þessu sem algerlega óviðeigandi á þessum stað og óréttmætu þar að auki.

Það er svo, að það er margt, sem athuga þarf í þessu máli og mælir á móti, að frv. verði samþ., og hefir það verið ýtarlega rakið af öðrum hv. þm. Mér dettur í hug eitt atriði, sem ég hefi ekki tekið eftir, að bent hafi verið á áður. Það er svo um þann fjörð, sem ég er kunnugastur, þar sem þessi dragnótaveiði hefir verið stunduð, sem sé Þistilfjörðinn, að þar hagar svo til, að í fjörðinn renna allmargar laxár, sem eru allmiklar veiðiár, og sérstaklega má búast við, að verði miklar veiðiár í framtíðinni. Ég hefi sjálfur séð og líka verið tjáð af kunnugum mönnum, að þarna hafi verið stundaðar veiðar með dragnót rétt úti fyrir þessum árósum, og ég vil sérstaklega beina því til þeirra, sem sérstaklega eiga að fjalla um þetta mál, sem sé sjútvn., hvort ekki sé ástæða til sérstakrar athugunar, því að ég álít, að hér sé ekki um svo lítið atriði að ræða. Það hefir verið talað um, að þyrfti að banna laxveiðar í sjó. Hér er um allmikla hættu að ræða fyrir laxveiði og laxafjölgun, þar sem svo hagar til, að dragnótaveiðar eru stundaðar rétt fyrir framan ósana á ám, þar sem laxinn liggur fyrir utan og hægt er að taka hann í stórum stíl með slíkri veiðiaðferð.

Ég sé, að einn af sjútvnm., sem einnig átti sæti í sjútvn. í fyrra og ásamt mér gaf þá út minnihlutanál., hv. 6. þm. Reykv., skrifar nú undir þetta nál., en með fyrirvara. Ég hefi ekki heyrt hann gera grein fyrir honum við þessa umr., en verið getur, að hann hafi gert það, þegar ég hefi verið fjarstaddur. (SK: Ég hefi gert það). Ég vona þá, að fyrirvarinn sé í því fólginn, að hann sé á móti frv. og ætli að greiða atkv. gegn því, því að samkv. þeim rökum, sem við vorum sammála um í fyrra og settum í okkar nál., sé ég ekki annað en hann hljóti að vera það. Ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa upp nokkur orð úr þessu nál. okkar, sem við hv. 6. þm. Reykv. skrifuðum undir, og ég vona, að hann sé fyllilega samdóma. Þar stendur svo:

„Minni hl. telur, að fara verði sérstaklega gætilega í öllu því, er teljast mætti til þess fallið að draga úr verndun landhelginnar frá því, sem nú er, og telur ekki, að slíkt geti réttlætzt sem kreppuráðstöfun.“

Ennfremur stendur í nál.:

„Fiskimenn víðsvegar um land eru því mjög mótfallnir, að rýmkað verði um leyfi til dragnótaveiðanna, og afnám héraðabannanna sætir sérstaklega harðri mótspyrnu frá þeim, sem að þessum bönnum hafa staðið. Og meðan ágreiningur um áhrif þessarar veiðiaðferðar er svo mikill sem nú, virðist með öllu ófært að taka þennan sjálfsákvörðunarrétt af héruðunum, enda mundi rýmkunin sumstaðar aðallega verða til hagsbóta fyrir útlendinga.“

Mér virðist, að nú sem fyrr sé aðalröksemd hv. flm. sú, að þetta sé einskonar kreppuráðstöfun fyrir útgerðina. Og þeir, sem á síðasta þingi hafa slegið föstu með yfirlýsingum og atkvgr., að slík ráðstöfun gæti ekki réttlætzt sem kreppuráðstöfun, hljóta einnig að vera nú á móti þessu frv., og þeir, sem hafa slegið því föstu, að með öllu sé ófært að taka þennan sjálfsákvörðunarrétt af hérunum, hljóta einnig að vera á móti þessu frv., því að í því er það aðalatriðið, að taka þennan sjálfsákvörðunarrétt af héruðunum, og þeir, sem hafa verið með því í fyrra, að meðan svo mikill ágreiningur væri um málið, væri ekki hægt að breyta þessari löggjöf, hljóta að vera á móti þessu frv., því að ég sé ekki betur en að nú sé alveg sami ágreiningurinn til staðar og var í fyrra, þegar þetta mál var hér til meðferðar.