08.04.1937
Neðri deild: 33. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í B-deild Alþingistíðinda. (841)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Finnur Jónsson:

Ég sé, að umr. eru að fjara út, en vil þó nota þær fáu mínútur, sem mér eru heimilar. Ég vil fyrst og fremst gera aths. við þá staðhæfingu hv. þm. N.-Þ., að andstaðan gegn þessu máli hefði ekki rénað síðan í fyrra. Ég vil hinsvegar álíta, að andstaðan gegn þessu máli sé nú svo brotin á bak aftur, að því sé fullur sigur vís að þessu sinni. Þetta sést meðal annars á samþykkt frá flokksþingi framsóknarmanna í vetur, þar sem flokkurinn telur endurskoðun á dragnótalöggjöfinni mjög nauðsynlega. Ég ætla, að hér hafi verið átt við það, að rífka ætti um leyfi til þessarra veiða, vegna þess að ráðh. flokksins hefir lýst yfir því hér, að hann væri hlynntur styrkjum til hraðfrystihúsa í verstöðvum, en bygging slíkra húsa er alveg þýðingarlaus, ef ekki er rýmkað um leyfi til dragnótaveiða. Það er fullkomin fjarstæða, að það svari kostnaði að fara að byggja slík hús til þess að frysta þorsk og aðrar ódýrar fisktegundir. Við þetta bætist, að sjálfstæðismenn flytja nú frv. um styrk til hraðfrystihúsa, og við alþýðuflokksmenn annað, sem er enn yfirgripsmeira. Allt þetta bendir eindregið í þá átt, að leyfi til dragnótaveiða í landhelgi eigi meira fylgi að fagna á þingi en nokkru sinni fyrr. Það má því telja fullvíst nú, að þetta mikla velferðarmál nái fram að ganga að þessu sinni með þeim brtt., er sjútvn. flytur við það. En þær ganga í þá átt, að koli sé ekki veiddur um hrygningartímann, að ákveðin sé möskvastærð og ráðh. ákveði þunga þess kola, er megi selja. Með þessum ákvæðum er viðgangur kolans betur tryggður en nokkurs annars fisks hér.