08.04.1937
Neðri deild: 33. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (843)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Pétur Ottesen:

Það er vitanlega ekki annað en fjarstæða hjá hv. þm. Ísaf., að ekki sé kleift eða nauðsynlegt að byggja hraðfrystihús í verstöðvum, ef landhelgin verður ekki opnuð fyrir dragnótinni. En auðvitað verður að gæta þess, að sá fiskur, sem þar er frystur, eyðileggist ekki í höndum þeirra, sem eiga að selja hann, eins og fiskurinn, sem sendur var til Ameríku og Póllands. Þessar staðhæfingar hv. þm. Ísaf. eru engin rök í málinu.

Hv. þm. A.-Sk. hafði verið að tala um, að ég væri farinn að linast í þessu máli. Það geta þeir dæmt um, sem á mig hafa hlýtt, en hitt er víst, að hann er nú sjálfur orðinn útvatnaður í dragnótinni og gersamlega bragðlaus.