12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í B-deild Alþingistíðinda. (862)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Magnús Torfason:

Ég skal strax taka það fram, að ég er á móti þessum brtt. öllum saman, því að þær eru bara kák eitt. Aðalatriðið er, hvað á að gera til þess að friða landhelgina. Og þegar talað er um að friða landhelgina, er aðalspursmálið að friða Faxaflóa. Faxaflói er mesta og bezta klakstöðin fyrir fiskstofninn. Ég vil ekki lá mönnum, þó að þeir sækist hart eftir þessu. Dragnótaveiðar eiga vitanlega að vera einskonar bjargráð í svipinn, meðan verð á þorski er lágt. En ég tel kenna hér nokkurs óhófs. Þó er það eitt, er sérstaklega vakir fyrir mér, þegar ég greiði atkv. á móti þessu frv., og það er, að nú fyrst er farið að bóla á því, að erlendar þjóðir hafi fengið skyn á því, að ekki sé þýðingarlaust, að fiskimiðum okkar sé haldið við. Það er í fyrsta sinni, sem farið er að bóla á því, að erlendar þjóðir hafi tekið í mál að friða Faxaflóa. Og þá segi ég fyrir mitt leyti, að ég er ekki í vafa um, að ef slík lög eins og þessi verða samþ., þá kippa þeir að sér hendinni með þetta, því að það þýðir vitanlega það, að landsmenn ætla sér að taka fiskinn í landhelginni sjálfir og sjá um, að þeir, er fiska utan landhelginnar, fái ekki neitt. Hér á Alþingi hefir þetta atriði ekki verið rætt neitt sem heitir. Það er eins og því sé ekki gefinn verulegur gaumur. Vitaskuld er það eins og nú horfir, að það verður að hafa hraðann á til þess að koma þessu máli fram. En ég hygg, að það sé ekki rétt að hraða slíku máli sem þessu, er getur haft miklar afleiðingar fyrir okkur. Hvað sem öðru líður, er ekkert vit að láta það ganga fram nú, heldur hugsa það betur til næsta hausts og taka það aftur upp. Þá er líka hægt að vita betur, hver alvara hefir fylgt þeirri samþykkt, sem gerð var á Lundúnaþinginu. Mér þykir það koma úr hörðustu átt, að við Íslendingar virðum þær till. að vettugi, og ekki aðeins það, heldur gerum hrein og bein lagafyrirmæli gegn þeim till., sem ég fyrir mitt leyti er viss um, að bólar aldrei á aftur, ef við stígum það spor, sem nú virðist eiga að stíga í þessu máli.