12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Jónas Guðmundsson:

Mér þykir miður, að 2 hv. þm. skuli hafa gerzt til þess að koma hreppapólitík inn í þetta mál. Það virðist svo með þeim till., sem samþ. voru við 2. umr., að þá væri loks búið að ganga svo frá málinu, að allri hreppapólitík væri komið fyrir kattarnef. Það er því leitt til þess að vita, að hv. þm. Snæf. og hv. þm. V.-Ísf. skuli hafa gerzt til þess að vekja hreppapólitíkina upp aftur, enda má nú sjá, hvert stefnir, þar sem rignt hefir inn a. m. k. 10 brtt., sem allar stefna í sömu átt, að tryggja, að hver landshluti hafi til afnota sitt afmarkaða svæði. (TT: Þar með ein frá hv. ræðumanni). Það er rétt.

Ég vil segja það, að ef á að gera slíka undanþágu, sem hv. þm. Snæf. vill, þá er ekki minni ástæða til að gera slíka undanþágu fyrir Austfjörðu, því að einmitt þar eru dönsku skipin mest að þessum veiðum. Einmitt þar hafa útlendingar haft bezta aðstöðu til þess að sópa firði og víkur undanfarin ár, því að þar eru varðskipin minna á ferðum heldur en annarsstaðar. Ég skal svo segja það strax, að ég mun greiða brtt. atkv., meðan verið er að koma þeim í samhangandi heild, en síðan á móti þeim að lokum, til þess að frv. geti farið út úr d. eins og það var við 2. umr.