12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (871)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Páll Þorbjörnsson:

Hv. þm. Borgf. var í síðustu ræðu sinni aðallega að reyna að skemmta hv. þm. og áheyrendum, og sýnir það ábyrgðarleysi hans. Það er nú sýnilegt, hvernig þessi vetrarvertíð ætlar að fara hér við Faxaflóa og Vestmannaeyjar, og væri ekki vanþörf að bæta það upp með því að gefa mönnum sæmilegri skilyrði til sumaratvinnu. Hér hefir drifið að mesti fjöldi brtt. Er barnaskapurinn svo mikill í sambandi við þessar tillögur, að ég get ekki stillt mig um að nefna eitt dæmi. Hv. 2. þm. N.-M. ber fram till., ásamt fleirum, sem bannar dragnótaveiðar á vissu svæði öðrum skipum en þeim, sem eiga heima í Norður-Múlasýslu, Vestur-Húnavatnssýslu og Skagafjarðarsýslu. Þessar sýslur eru svo að segja skipalausar. Í Skagafjarðarsýslu munu vera 4 skip skrásett, og þar af eitt svo stórt, að það getur ekki stundað dragnótaveiðar. Í Vestur-Húnavatnssýslu er eitt skip, smákoppur, og í Norður-Múlasýslu er víst ekkert skip til. Það er með þessar fiskveiðar sem aðrar, að skipunum er nauðsyn að geta flutt sig til kringum landið. Bátum, sem stunda dragnótaveiðar við Vestmannaeyjar að vori til, er nauðsynlegt að geta með sumrinu flutt sig vestur á Faxaflóa og Breiðafjörð og síðan til Vestfjarða og Norðurlands. Það er svo með allar veiðar hér við land, að það henta ekki sömu miðin allt árið. Hv. þm. Snæf. ætti t. d. að vera því kunnugur, að það hentar ekki, að togararnir séu á Selvogsbanka allt árið. Þessi hreppapólitík, sem hér er verið að halda á lofti, er ekkert einsdæmi. Það liggur t. d. fyrir beiðni frá Vestfjörðum um að banna að veiða flyðru á línu á Breiðafirði öðrum skipum en þeim, sem þar eiga heima. Og ég heyrði það lesið í útvarpinu, að tilætlunin væri að fá því framgengt, að bönnuð yrði reknetaveiði inni á Húnaflóa. Það er í fullu samræmi við skoðanir þessara tillögumanna hér. Ég verð að segja, að ég efast um, að þeir hv. þm., sem flytja þessar till., geri það í umboði sinna kjósenda, því að þó menn séu víða í þessum kjördæmum fáfróðir um þessi mál, sjá þeir þó væntanlega, að hér er verið að skemma fyrir þeim afkomumöguleika.

Á laugardaginn hitti mig maður hérna fyrir utan og spurði, hvernig þessu máli liði. Ég hélt, að málið myndi fara í gegn, af því að það var samþ. við 2. umr, með 20:4 atkv. Hann spurði þá, hvort óhætt myndi að fara að fá sér veiðarfæri, án þess að þurfa að óttast, að síðar yrði komið að baki honum í þessu máli. Hér hafa sumir hv. þm. gert sér leik að því að koma að baki slíkum mönnum. Það væri ekki óþokkaleg gjöf, sem þessum mönnum væri færð, eða hitt þó heldur, ef útvegur þeirra yrði þannig eyðilagður næsta sumar.