12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Gísli Sveinsson:

Ég hefi ekki á nýliðnum þingum tekið þátt í umr. um þetta mál, hvorki utan þings né innan, og ég hefði ekki gert það nú, ef ekki hefði gefizt sérstakt tilefni. Málið er alvarlegt á báðar hliðar, og það svo mjög, að maður hefði ekki búizt við því, og sízt við, sem greiddum atkv. með því til 3. umr., að það kæmist inn á þessar brautir. Það hefir alltaf virzt ríkja full alvara í þessu máli, og ekki sízt af hálfu þeirra, sem bentu á nauðsyn þess að rýmka heimildina til dragnótaveiða og lögðu fram rök sérfróðra manna fyrir því, að þetta væri óhætt. Þetta mál hefir stundum verið talið æsingamál, en það hefir í rauninni aðeins verið einn maður, hv. þm. Borgf., sem hefir flutt æsingar inn í það og gert það að nokkurskonar fíflskaparmáli. Það verður að teljast óhæfilegt að taka svo einstrengingslega á málinu, að fólki, sem á hlýðir, verði á hlátur og sköll. En nú eru hv. þm. orðnir svo smitaðir af áheyrendum, að nú tekur helmingur þingheims þátt í sköllunum. Þegar málið fór til 3. umr., greiddu 20 þm. atkv. með því og ekki nema einstaka maður með fyrirvara. Ég tók eftir því, að sá maður, sem leitt hefir hér asnann inn í herbúðirnar, hv. þm. Snæf., greiddi atkv. með málinu til 3. umr. með þeim fyrirvara, að séð yrði fyrir styrkveitingu til að koma upp frystihúsum á Snæfellsnesi. Ég skil ekki, hvaða áhuga hann getur haft á því að koma upp frystihúsum, ef hann vill ekki leyfa, að veitt sé það, sem á að koma í frystihúsin.

Það vita allir, að ógerningur er að koma á tryggu eftirliti með því, að ekki sé veitt í landhelgi. Ef varðskip eru höfð, er hægt að taka einn og einn bát, svo að þessar hömlur eru aðeins til að útvíkka það svið, sem hefir verið lögbrotasvið. En auk þess, sem þetta eftirlit er óframkvæmanlegt, er það í sjálfu sér óforsvaranlegt að banna að veiða með dragnót við strendur landsins. Það hefir komið í ljós, að ekki er ástæða til að hindra rýmkun landhelginnar, heldur öfugt. Hér koma til greina hagsmunaaðstæður, sem ekki má traðka niður. Þetta sjónarmið á sér rót í áliti fiskifræðinga, hvað svo sem hv. þm. Borgf. kann að segja.

Á það hefir verið minnzt, að rýmkun þessi á landhelginni, sem hér er um að ræða, myndi aftaka það, að hægt yrði að fá framgengt hagsmunakröfum okkar um alþjóðafriðun ákveðinna svæða hér við land. Ég sé ekki, að þetta geti haft nokkra þýðingu í því máli, því að það er ekki enn komið á neinn rekspöl, svo að ekki getur verið um það að ræða, að hindra það. Ef lítillegar breytingar á löggjöf okkar geta haft áhrif á alþjóðasamþykktir um friðun ákveðinna svæða, þá eru okkar áhrif farin að verða nokkuð mikil og meiri en áður hefir verið vitað um, enda mun því fara alls fjarri. Við verðum að sætta okkur við það og lúta því. Ég sé ekki annað en að málið sé komið í óefni, og ég vildi því beina því til hæstv. forseta, hvort ekki væri heppilegt að vísa málinu til sjútvn., og frv. komi svo í einni heild frá n., en ekki í smápörtum, eins og það liggur nú fyrir. Það er alls ekki hægt að hafa svo margar till. um málið, ef það á að fást nokkurt samræmi í það, og ég vil leggja til, að d. greiði atkv. á móti öllum þessum tillögum.