13.04.1937
Neðri deild: 37. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í B-deild Alþingistíðinda. (878)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég skal ekki vera langorður. Það voru nokkur orð, sem féllu hjá 3. landsk., og ég vil gera aths. við. Hann sagði, að þær till., sem fram hefðu komið í þessu máli, væru hjákátlegar, Þegar hann talaði um fiskibátana, þá sagði hann, að það væri ekki nema um örfáa báta að ræða á svæðinu milli Hrútafjarðarbotns og Almenningsnafar. Hér má segja, að hann sjái gagnstætt sannleikanum. Veit þessi hv. þm. það ekki, að fólkið, sem býr í sjávarplássunum á þessu svæði, á marga báta og stundar sjó, og vill fá að gera það í friði, án þess að aðkomumenn með dragnætur spilli veiðiskap þeirra? Það þarf þessa til þess að geta framfleytt lífinu; þetta er þeirra atvinnuvegur, en þarna eru nú ekki notaðar dragnætur við veiðina. Það er algerlega rangt hjá honum, að það séu ekki nema 3 bátar á þessu svæði, og það var það, sem gaf mér tilefni til að gera aths. við ræðu þessa hv. þm.

Ég get ekki látið hjá líða að þreyta hv. 9. landsk. svolítið. Hann sagðist hafa talað við fjölda barnakennara þar vestur í Barðastrandarsýslu, og þeir hefðu sagt þetta og þetta, og það, sem þeir fræddu hann um, er orðinn nokkurskonar biblíuátrúnaður hjá honum. Þessi hv. þm. sagði, að þeirra skoðun væri breytt í þessu efni, og þeir álitu, að ef dragnótaveiðarnar væru leyfðar, þá væri það eins og ef Barðstrendingar dræpu allt fé sitt til þess að koma í veg fyrir, að það dræpist á fjalli. Hann sagði ennfremur, að dragnótaveiði væri mjög hættuleg. og að það væri í raun og veru ekki hægt að friða Faxaflóa. Hvernig hann ætlar að samrýma það tvennt, skil ég ekki. Mér finnst þetta stangast, þegar þess er gætt, að hv. þm. vill opna upp á gátt. Ég efast ekki um það, að rétt sé að friða Faxaflóa, þar sem ungviðið vex upp. Ef öllum væri leyft að vaða þar uppi með allskonar veiðarfæri, gæti það orðið hættulegt fiskistofninum, og þess vegna er það mjög varhugavert að opna alla flóa og firði upp á gátt, eins og þessi þm. vill vera láta.