15.04.1937
Efri deild: 41. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Magnús Guðmundsson:

Mér finnst Alþingi vera undarlega reikandi í þessu máli. Undanfarið hefir það í sífellu verið að breyta ákvæðum um dragnótaveiði í landhelgi, ýmist að rýmka þau eða þrengja. Fyrir fáum árum þótti nauðsynlegt í þinglokin að fá bráðabirgðal. um þetta. Þá lét meiri hl. þm. í báðum deildum sem nauðsyn væri að rýmka þessi ákvæði, en á næsta þingi á eftir höfðu ýmsir þeirra snúizt svo, að þá voru bráðabirgðal. felld.

Það verður að teljast talsvert hart aðgöngu, að með frv. eru tekin ráðin af ýmsum héruðum, sem vilja fá að friða sín veiðisvæði. Ég skil ekki nauðsyn þessa. Það á að vera bjargráð vegna þess, hve illa fiskast, en um leið eru fiskimiðin opnuð fyrir 30 sinnum stærri þjóð, og mun hún eflaust nota sér það. Hefir verið eftir því beðið af stórum útgerðarfyrirtækjum í Danmörku, að landhelgin yrði þannig opnuð. Ég spái því þess vegna, að ekki muni líða langur tími, þar til þessu verður aftur breytt. Á það ber að vísu að líta, að takmörkuð er stærð þeirra báta, er veiðarnar mega stunda, og er ætlazt til þess, að það dragi nokkuð úr veiðum útlendinga. Getur verið, að þetta hafi nokkur áhrif í þá átt. En ég held, að réttara væri að bíða enn um stund, því að það kemur sennilega í ljós, að okkar mið eru ekki svo auðug, að þau þoli það sarg, sem þessar fyrirhuguðu breyt. hefðu í för með sér. Ég hefi fengið kvartanir um það úr mínu kjördæmi, að útlent skip hafi verið að veiða inni í fjarðarbotni, og segja sjómenn, sem hafa veitt þar undanfarið þyrskling á færi, að það hafi alveg eyðilagt þá veiði fyrir þeim. Af þessum veiðum myndi auk þess hljótast það, að veitt yrði í vörpu og eyðilagt ungviðið, sem engum væri gagn að. Ég mun því greiða atkv. gegn þessu frv., samkvæmt tilmælum sjómanna á Sauðárkróki, sem þykjast hafa slæma reynslu af þessu eilífa skaki útlendinga á Skagafirði og alveg inn í fjarðarbotn.