15.04.1937
Efri deild: 41. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég ætlaði ekki að blanda mér í þessar umræður sérstaklega. En út af þeim andmælum, sem hér hafa komið fram, þá taldi ég rétt, að ég lýsti minni afstöðu til þessa máls. Eins og kemur fram í nál., þá er ég þessu máli eindregið fylgjandi, Þau rök hafa verið færð fyrir málinu, m. a. af hv. frsm. n., að ástandið í sjávarútveginum væri nú þannig, að nauðsynlegt væri að opna þá möguleika, sem unnt væri, fyrir smábátaútveginn, enda er nokkur reynsla fengin fyrir því, að sá þáttur fiskveiðanna, sem hér um ræðir, er líklegastur til að gefa einna beztan arð. — Hér er líka reynt samkv. frv. að skipta verkefnum milli hinna stærri og minni skipa, eða með öðrum orðum milli þeirra, sem stunda síldveiðar, og hinna, sem stunda dragnótaveiðar. Þess vegna er skipastærðin bundin við 35 smálestir, og það haft í huga, að minni skipin, sem eru verr fallin til að stunda herpinótaveiðar, geti stundað yfir sama tíma dragnótaveiðar. Ég ætla ekki að fara frekar út í það, hve mikil nauðsyn er á því, að þessi tegund skipa geti stundað veiðar með sæmilegum árangri yfir sumarmánuðina, enda liggja fyrir því nokkurnveginn fullgild rök.

En rök þau, sem hv. 1. þm. Skagf. færði hér fram, voru á þá leið, að ég held, að réttast sé að gefa hv. dm. færi á að kynnast því, sem sagt hefir verið um þetta mál af manni, sem sérstaklega hefir lagt sig eftir því að athuga, hvernig þetta mál horfir við fyrir okkur Íslendinga frá hagfræðilegu sjónarmiði, en sá maður er Árni Friðriksson fiskifræðingur. Hann gerði mjög nákvæma athugun á þessu máli 1928. Meðal annars benti hann á, að það liti svo út sem við Íslendingar værum að friða kolann fyrir útlendinga, sem stunduðu hér veiðar með botnvörpu, sérstaklega Englendinga og Þjóðverja og aðrar þjóðir, sem senda botnvörpuskip hingað á miðin. Hann segir í áliti, sem prentað er í þingtíðindum 1931, að það líti svo út sem við séum að friða skarkolann fyrir útlendinga, sérstaklega Breta, því að við veiðum ekki sjálfir nema 1/10 hluta móti útlendingum, eða varla það. Og þó að kolaveiði Íslendinga hafi eitthvað aukizt síðan, þá er hún mjög lítil í hlutfalli við veiði annara þjóða, og þó er hér að ræða um einhvern verðmesta fiskinn, sem við getum veitt og selt á erlendan markað.

Um annað atriði, sem hv. 1. þm. Skagf. talaði hér um, sem sé hættuna af dragnótinni, segir Árni Friðriksson:

„Það er óþarfi að lýsa dragnótinni hér og nægilegt að taka það fram, að hún er handhægt og ódýrt veiðarfæri, sem getur gert fátækum fiskimönnum það fært að nota björgina, sem oft er við bæjardyrnar, án mikils mannafla og kostnaðar. Dragnót er einungis hægt að nota á sand- eða leirbotni, því hún er veikgerð og þolir hvorki grýttan botn né þaragróður. Hún getur því ekkert mein unnið þaragróðrinum, sem reyndar er lítils virði fyrir útgerðina, og það mjög óbeinlínis. Ungviði þorsksins og annara bolfiska getur hún ekki grandað svo neinu nemi, af þeim ástæðum, sem nú skal greina.“

Svo segir hann, að þessi nót hafi engin áhrif á ungviðið, og það sé byggt á misskilningi manna, að dragnótin geti spillt fyrir gangi annara nytjafiska á svæðum, þar sem hún er notuð. Ég hygg, að þetta sé nokkurnveginn í samræmi við skoðun athugulla fiskimanna, sem hafa notað dragnótina, enda er hitt meira trúaratriði manna heldur en það hafi við rök að styðjast. — Ég held, að það sé nægilegt að hafa þessi orð um hættu þá, sem af dragnótinni á að stafa.

Í þriðja lagi vildi hv. þm. halda því fram, að það væri nokkuð hart að gengið að meina héruðum að loka hjá sér. En fyrir hverju eru þessi héruð að loka? Flestir þeir, sem fara fram á að loka hjá sér, nota þetta ekki sjálfir, og ég verð að segja, að það er helzt til mikil öfund hjá þeim, að meina sínum eigin landsmönnum, sem kunna að hafa tæki til að veiða, að veiða á þessum stöðum, þótt þeir taki ekki sjálfir þátt í veiðinni. Þetta er ekki gert með aðrar veiðar, eins og t. d. síldveiðar. Mönnum er heimilt að taka síld í landhelgi hvar sem er, og þar eru engin héraðabönn, þótt sum héruð geti að litlu eða engu leyti notað sér veiðina sjálf. Ég get ekki gert greinarmun á dragnótaveiðum og herpinótaveiðum í þessu efni.

Ég ætla að fresta að tala um fjórða atriðið, sem er stærsta atriðið í hugum margra manna, en það er ótti sá, sem stafar af Dönum, sem líklegir væru til að stunda hér veiðar. Ég mun tala um það atriði við 3. umr.

Af þessum ástæðum og mörgum fleirum er ég eindregið með því, að ekki sé annað fyrir okkur að gera en notfæra okkur kolann eins og við bezt getum.