15.04.1937
Efri deild: 41. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (896)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Magnús Guðmundsson:

Ég er lítið þakklátur hv. 4. þm. Reykv. fyrir það, að hann hefir lesið hér upp álit Árna Friðrikssonar, því að ég hefi oft heyrt það áður, svo að þetta er ekkert nýtt fyrir mig. En það er eitt, sem ég skal segja sjómönnum fyrir norðan eftir hv. þm., og það er, að það sé ekkert annað en trúaratriði fyrir þeim, að þetta veiðarfæri spilli, og vita, hvort þeir trúa því, að hann segi þeim réttara en það, sem þeir hafa sjálfir rekið sig á af reynslunni.

Hann talaði um, að Árni Friðriksson segði, að við værum að friða kolann fyrir útlendinga. Ég held, að réttast sé að snúa þessu við og segja, að við séum nú að leyfa útlendingum að taka hann hér hjá okkur. Við erum að leyfa 30 sinnum stærri þjóð að veiða í okkar eigin landhelgi. (JAJ: Það er takmarkað við stærð skipanna.) Já, en ef það er litið svo á, að þetta sé gert til að útiloka Dani, þá stappar nærri, að hér sé um bein samningsrof að ræða. En ég vil ekki álíta það, heldur taka hitt fyrir satt, sem tekið hefir verið fram, að þetta sé gert vegna síldveiðanna, því að þessi minni skip geta ekki stundað síldveiðar.

Ég vil endurtaka að síðustu, að ég er viss um, að það verður erfitt að telja þeim sjómönnum, sem álíta, að með þessu sé spillt fyrir sér afla, trú um, að verið sé að bjarga þeim úr vandræðum með því að samþ. þetta frv. Og ég er alveg viss um, að það er sama, hvað oft hv. 4. þm. Reykv. og aðrir prédika fyrir þeim mönnum, sem hafa reynsluna fyrir sér, því að þeir trúa þeim ekki.