16.04.1937
Efri deild: 42. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

79. mál, útrýming sels úr Húnaósi

*Frsm. (Pétur Magnússon):

Ég skal játa það, að sama sló mig og hv. þm. nú, að ekki væri nægilega skýrt kveðið á um það í 2. gr., að bæturnar skyldu miðaðar við mat til heimatekna prestakallsins. En þegar ég fór að athuga þetta betur, sýndist mér samt sem áður, að þetta væri nógu skýrt tekið fram, því að í gr. stendur „eins og þær eru metnar“. Sýnist því vera gengið út frá því mati, sem þegar er farið fram, og jafnvel eftir orðalagi gr. sýnist erfitt að halda því fram, að sérstakt mat verði fram að fara. Og þegar þar að auki hefir komið skýrt fram í umr., að það er þetta mat, sem átt er við, þá sýnist mér tæplega ástæða til að fara að flækja þessu litla máli milli deilda til þess að fá þetta inn. Það hefir m. a. komið skýrt fram í ræðum mínum og hv. 4. landsk., við hvað er átt með þessu, og ef einhver vafi gæti legið á með skýringar á þessu alriði, þá er það nægilegt til að skýra, við hvað er átt.

En út af því, sem hv. þm. minntist á ófriðun sels í Ölfusá, þá vil ég benda á, að hér er ekki farið fram á styrk til útrýmingarinnar, en þar hefir verið greidd þó nokkur fjárhæð úr ríkissjóði, ég ætla, að það hafi verið 1000 kr. í síðustu fjárlögum. Það er því ekki ósanngjarnt, að þessar bætur verði í þessu tilfelli greiddar af ríkissjóði, en ekki veiðifélaginu, sem á að bera kostnaðinn af útrýmingu selsins. Þar að auki hlyti að verða umsvifameira að fá þetta greitt af eigendunum en úr ríkissjóði.